Verður áfram í gæsluvarðhaldi og einangrun

Frá Neskaupstað.
Frá Neskaupstað.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um áframhaldandi gæsluvarðhald og einangrun til 6. september yfir manninum sem er grunaður um að hafa orðið hjónum að bana í Neskaupstað í síðustu viku.

Greint er frá ákvörðun dómstólsins um að fallast á gæsluvarðhaldið í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.

Fram kom í gær að fallist hafi verið á kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um geðrannsókn á hinum grunaða.

Maðurinn sem er grunaður um að hafa orðið hjónum á áttræðisaldri að bana var handtekinn í Reykjavík og var úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði.

Lögreglan segir að rannsókn málsins miði vel og eitt af því sem verið sé að skoða hvort eða hvaða vopni hafi verið beitt en hjónin fundust látin á heimili sínu í Neskaupstað fyrir viku síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert