Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, kveðst afar áhyggjufullur yfir alvarlegri þróun ofbeldis og vopnaburðar meðal barna og ungmenna á Íslandi.
Spurður hvernig það líti við honum sem barnamálaráðherra að börn telji sig sum hver nauðug til að bera vopn sér til varnar segir ráðherrann það eitthvað sem samfélagið verði að bregðast við samstundis.
„Þetta er mjög alvarleg þróun og við viljum alls ekki að þetta haldi áfram að vaxa með þeim hætti sem verið hefur og við verðum að vinda ofan af þessu.“
Mennta- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra ræddu víðtækar aðgerðir vegna ofbeldis á meðal barna og gegn börnum á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Forvarnaaðgerðir á vegum ráðuneytanna þriggja voru kynntar í júní í á þessu ári og séu sumar þeirra þegar komnar til eflingar þ.á.m. efling samfélagslöggunnar, sem heimsækja skóla til að fræða og ræða við börn á öllum skólastigum.
„Til að snúa þessari óheillaþróun sem er hér á landi,“ segir Ásmundur.
Í næstu viku mun aðgerðarhópur þeirra ólíku aðila sem að aðgerðunum koma hittast og fara yfir áætlun. Sömuleiðis muni forsætisráðherra boða til fundar í ráðherranefnd um málefnið í næstu viku.
„Það eru allir sammála um það að við verðum að stíga eins fast inn og mögulegt er og við verðum að ná að virkja alla aðila í þessu. Aðgerðirnar eru grunnur að þjóðrátaki og eiga að miða að því að virkja allt samfélagið með forvörnum, samtali og líka eflingu löggæslu.“