Afkoma Ríkisútvarpsins fyrstu fimm mánuði ársins var lakari en uppfærð áætlun gerði ráð fyrir. Ástæða þess er einkum aukinn launa- og verktakakostnaður fréttastofu RÚV vegna eldsumbrotanna á Reykjanesskaga og vegna forsetakosninga. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Ríkisútvarpsins frá 26. júní sem birt var í vikunni á vef RÚV.
Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hafa stjórnendur RÚV neyðst til að grípa til hagræðingaraðgerða til að bregðast við ríflega 280 milljóna gati í fjárhagsáætlun ársins. Gatið er meðal annars vegna hagræðingarkröfu, vanmats á launagreiðslum og minni auglýsingatekna en rekstraráætlun gerði ráð fyrir. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri greindi frá því í svari til blaðsins í byrjun júlí að hagræðingaraðgerðirnar næmu um 300 milljónum króna. Þær fælu í sér endurmat á ýmsum tekju- og útgjaldaforsendum, starfsfólki hefði verið fækkað með því að draga úr endurráðningum auk annarra hagræðingaraðgerða.
Í kynningu fjármálastjóra RÚV á fundi stjórnar félagsins kom fram að afkoma þess hefði verið talsvert undir áætlun í maí, sem rekja mætti til lægri auglýsingatekna og hærri útgjalda en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir.
Á umræddum stjórnarfundi RÚV í júní var netárás sem gerð var á Árvakur skömmu áður til umræðu. Í fundargerð kemur fram að árásin hafi gefið RÚV og vöktunaraðilum tilefni til að fara yfir þessi mál sérstaklega og skoða nánar mögulega veikleika hjá RÚV.