Torfi Jónsson, listmálari og kennari, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 26. ágúst síðastliðinn, 89 ára að aldri.
Torfi fæddist á Eyrarbakka 2. apríl 1935. Foreldrar hans voru Hanna Alvilda Ingileif Helgason, f. 1910, d. 1999, og Jón S. Helgason stórkaupmaður, f. 1903, d. 1976. Systkini Torfa eru Helgi V., d. 2021, Hallgrímur G. og Sigurveig.
Torfi útskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands 1954 og sótti í kjölfarið ýmis námskeið í Handíðaskólanum, enda hafði hann málað myndir og teiknað frá barnæsku, ásamt því að starfa við rekstur foreldra sinna. Hann stundaði nám við Listaháskólann í Hamborg 1958-61 í grafískri hönnun þar sem hann kynntist og tileinkaði sér skrautskrift, leturfræði og bókagerð. Við heimkomu stofnaði Torfi hönnunarstofu í Reykjavík og rak til ársins 1977.
Torfi kenndi hönnun árum saman við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og var skólastjóri frá 1982 til 1986. Síðar kenndi hann við Iðnskólann þar til hann lét staðar numið vegna aldurs. Torfi starfaði jafnframt sem bókahönnuður, meðal verka hans þar eru Passíusálmar séra Hallgríms Péturssonar, listaverkabækur ASÍ og ýmsar ljóðabækur.
Snemma á ferlinum haslaði Torfi sér völl í leturskrift á erlendum vettvangi með þátttöku í ótal samsýningum og vann til verðlauna fyrir verk sín og var eftirsóttur kennari í skrautskrift bæði hér heima og í Þýskalandi þar sem hann kenndi námskeið í 13 ár. Málaði Torfi jafnan stórar vatnslitamyndir úti í náttúrunni víða um land. Fyrsta einkasýning hans var á Loftinu á Skólavörðustíg árið 1965 og eftir það hélt hann fjölda annarra sýninga. Síðasta sýningin var á Hrafnistu í Hafnarfirði árið 2018.
Torfi lætur eftir sig fimm börn, 13 barnabörn og 14 barnabarnabörn. Sonur hans og Steinunnar Jónsdóttur er Hörður Ingi, húsasmíðameistari, f. 1956. Með fyrri eiginkonu, Elsu Heike Jóakimsdóttur Hartmann, eignaðist hann Svandísi, hágreiðslumeistara, f. 1960, Kristínu, kennara, listmálara og útstillingahönnuð, f. 1961, og Jóhann Ludwig, listamann, f. 1965. Með seinni eiginkonu sinni, Jónínu Helgu Gísladóttur píanóleikara, d. 2009, eignaðist hann Guðrúnu Ingu, lögfræðing, f. 1982.
Útför Torfa fer fram frá Fossvogskirkju 10. september klukkan 13.