„Þetta er náttúrulega 30 ára gömul hugmynd en frá því að Listasafnið flutti inn í bygginguna árið 1993 hefur hugmyndin um að nota þennan gamla brúsapall til listrænna viðburða gengið á milli starfsfólks safnsins og annarra í Listagilinu,“ segir Hlynur F. Þormóðsson, kynningarstjóri Listasafnsins á Akureyri, en safnið stendur í sumar fyrir tónleikaröðinni Mysingur þriðja sumarið í röð.
Heiti tónleikaraðarinnar er sótt í mjólkurafurðina með skírskotun í að Mjólkursamlag KEA var lengi til húsa í núverandi húsakynnum Listasafnsins. Eðli málsins samkvæmt er gott aðgengi fyrir stóra bíla á borð við mjólkurbíla við gamla lagerrýmið og stór og mikill lagerpallur, sem gjarnan er nefndur „gamli brúsapallurinn“ með vísan í gömlu mjólkurbrúsana.
Hlynur segir aðspurður aldrei hafa komið til greina að fjarlægja brúsapallinn þegar Listasafnið var að koma sér fyrir í húsinu, enda sé um að ræða aðstöðu sem auðveldar alla flutninga á til dæmis stórum og þungum verkum. Aðgengið sé mjög gott til vörulosunar og í raun eins og best verður á kosið. „Þetta er skýrt dæmi um hvernig fyrrumiðnaðarhúsnæði getur nýst í öðru hlutverki.“
Óhætt er að segja að Grófargilið, sem svo nefndist og gekk stundum undir viðurnefninu Kaupfélagsgilið vegna mikill umsvifa KEA í götunni, hafi tekið stakkaskiptum í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar þegar það varð að því Listagili sem þekkist í dag.
Byggingar sem áður hýstu ýmsa iðnaðarstarfsemi voru þá virkjaðar í þágu listarinnar. Þar sem smjörlíkisgerðin og Efnagerðin Flóra voru áður var tekinn í notkun fjölnotasalurinn Deiglan, sem og kaffihúsið er kennt var við Karólínu og varðlandsfrægt. Myndlistaskólinn tók við gamla Sjafnarhúsinu og Ketilhúsið sem árum saman sá iðnfyrirtækjum í Gilinu fyrir orku varð að fjölnota sýningarrými sem nú heyrir einnig undir Listasafnið ásamt gömlu Mjólkursamlagsbyggingunni.
Sú þróun að gamalt iðnaðarhúsnæði sé nýtt undir listastarfsemi átti sér einnig stað víða erlendis á svipuðum tíma, enda getur slíkt húsnæði oft hentað einkar vel þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja.
Hlynur segir að þegar ákveðið var að kýla á Mysinginn fyrir þremur árum hafi verið byggt skýli yfir brúsapallinn fyrir vindi og úrkomu. Þannig hafi orðið til svið og svo hafi portið verið notað sem áhorfendastæði. Portið hentar vel til þess að taka á móti fólki og þá segir Hlynur staðsetningu þess vera með þeim hætti að sólin sé þar á besta tíma dagsins, „sem er nú eins og flestir vita nær undantekningalaust hér á Akureyri,“ segir hann í gamansömum tón.
Listasafnið fékk Akureyrarbæ, auglýsingastofuna Geimstofuna og Ketilkaffi, kaffihúsið sem starfrækt er á jarðhæð safnsins, til liðs við sig. Hugmyndin var strax frá upphafi sú að fá listamenn úr grasrótinni til að troða upp að sögn Hlyns, bæði úr héraði og utan svæðisins. „Þetta er hugsað fyrir unga og upprennandi listamenn í bland við eldri og eilítið þekktari númer.“
Egill Logi Jónasson er verkefnastjóri Mysingsins. „Þetta eru kannski ekki beint böndin sem spila reglulega í Hofi eða Hörpunni,“ segir Egill. „Það er mikið og gott stöff í gangi í Reykjavík, á Akureyri og víðar. Margt töff og fjölmargir töff hafa spilað á Mysingnum undanfarin þrjú ár. Þar má nefna hljómsveitina Dr. Gunni, Bigga í Maus og Teit Magnússon en einnig grasrótarflytjendur á borð við Miomantis, hljómsveitina Ólaf Skram og Hugarró. Helgi og hljóðfæraleikararnir hafa auðvitað einnig spilað á Mysingnum og þá segist Egill sjálfur hafa tvívegis stigið á stokk sem Drengurinn fengurinn, bæði til að redda málum og til að fá athygli.
Níundu tónleikarnir í tónleikaröðinni verða haldnir í dag og hefjast herlegheitin klukkan 17. Þá koma fram Þorsteinn Kári, ný hljómsveit sem heitir Skandall og sigraði Viðarstaukinn, tónlistarkeppni MA á síðasta ári, en í sveitinni eru stelpur af öllu Norðurlandi, og þá mun einnig raftónlistarmaðurinn Pitenz stíga á stokk – Akureyringurinn Áki Frostason.
Enginn aðgangseyrir er á tónleikana og þá verður hægt að kaupa veitingar frá Ketilkaffi á svæðinu.
Auk áðurnefnds Mysings verður nóg um að vera í Listasafninu í dag þar sem opna fjórar nýjar sýningar kl. 15: Fríða Karlsdóttir – Ekkert eftir nema mýktin, Jónas Viðar – Jónas Viðar í safneign, Oliver van den Berg – Á svölunum og fræðslusýningin Grafísk gildi. Dagskránni á safninu lýkur svo með gjörningi Yuliana Palacios og Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur kl. 20 og 21. Í tilefni Akureyrarvöku verður Listasafnið opið til kl. 22 og enginn aðgangseyrir.