Björguðu hátt í 100 fýlsungum í gær

Arianne Gäwiler með fýlsunga sem hún bjargaði.
Arianne Gäwiler með fýlsunga sem hún bjargaði. Ljósmynd/Kerstin Langenberger

Arianne Gäwiler, sjálfboðaliði og björgunarsveitarkona, hefur ásamt fjölskyldu sinni og vinum bjargað um 150 fýlsungum í sumar.

„Þess­ir fýlsung­ar eru bara nokk­urra vikna gaml­ir og foreldrar þeirra fylgja þeim ekki eftir að þeir hoppa af björg­um og þurfa að kom­ast í sjó,“ seg­ir Ari­anne í sam­tali við mbl.is.

Hún segir að ungarnir sem þau bjarga komist ekki í sjóinn og að þeir kunni ekki að fljúga og séu jafnframt nokkuð feitir. Hún segir þá reyna að fara í vötn eða ár.

Fýlsungi á þjóðveginum.
Fýlsungi á þjóðveginum. Ljósmynd/Kerstin Langenberger

„Þeir mistaka þjóðveginn fyrir ár, þess vegna eru þeir að setjast á veginn og um leið og þeir setjast komast þeir ekki aftur upp. Þetta er ekki mávur sem getur tekið á loft af jörðu sem ungi.“

Arianne nefnir sem dæmi að fuglarnir í Hvalfirði komast auðveldlega í sjóinn af bjarginu og dúsi því ekki mikið á þjóðveginum þar.

Getur bjargað mannslífum

Arianne hefur stundað þetta í sex ár en í gær tókst henni að bjarga 99 ungum.

„Þetta er bara á einu svæði. Þeir eru mest á milli Seljalandsfoss og til Víkur og þar í kringum,“ segir Arianne en tekur fram að þetta eigi eftir að aukast næstu daga.

Hún bendir á að með því að fjarlægja ungana af þjóðveginum sé jafnframt mögulega verið að bjarga mannslífum.

Fýlsungar sem eru fastir í skurði.
Fýlsungar sem eru fastir í skurði. Ljósmynd/Kerstin Langenberger

„Ef einhver óvanur mætir svona fugli á vegi þá getur hann beygt og lent í árekstri. Við sjáum okkur líka vera að reyna að bjarga mannslífum með þessu,“ segir Arianne.

Arianne segir skurði úti á landi vera fulla af dauðum fuglum og segir að ef fýlsungar lenda þar komast þeir ekki þaðan upp úr.

„Þeir fuglar sem eru lengi í skurðinum eru með ónýtar fjaðrir af því jarðvegurinn fer illa með fjaðrirnar,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert