„Draumórar“ að þurfa ekki að gera málamiðlanir

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ólafur Árdal

„Við látum skoðanakannanir ekki stjórna störfum okkar, en leiðum þær heldur ekki hjá okkur eða reynum að gera lítið úr þeim,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins. 

Fundurinn hófst klukkan 13 á Nordica hótel og er sá fjölmennasti frá upphafi. Búist er við líflegum umræðum á fundinum en fylgi flokksins hefur dalað mikið á undanförnum mánuðum og hefur raunar aldrei verið lægra.

Saga vinstriflokka sýni að sundurleitni nái ekki árangri 

„Fylgið hefur lækkað og er óviðunandi og við því verður að bregðast,“ sagði Bjarni í upphafi ávarps síns.

„En kannanir eru ekki forlög eða óumflýjanleg niðurstaða. Það sanna dæmin, síðast frá nýliðnum forsetakosningum, að skoðanakannanir gefa vísbendingu um stöðuna á einum tímapunkti. En þær eru ekki ávísun á niðurstöðu í kosningum.“

Hann sagði mikilvægt að Sjálfstæðismenn snúi bökum saman og nái tökum á stöðunni enda næði sundurleitur og ósamstæður hópur ekki árangri. Um það vitnaði saga vinstriflokka á Íslandi. 

Hlaupast ekki undan merkjum 

Vék formaðurinn þá máli sínu að ríkisstjórnarsamstarfinu sem hefur óneitanlega sætt gagnrýni í samfélaginu og innan stjórnarflokkana. Hann standi með sinni ákvörðun um það samstarf. 

Í slíku samstarfi hlaupist Sjálfstæðismenn síður en svo undan merkjum þótt á móti blási.

„Það eru ekkert annað en draumórar að halda að við getum setið í ríkisstjórn án málamiðlana. Hér hefur aldrei verið eins flokks ríkisstjórn og stefna eins flokks aldrei ráðið allri ferðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert