„Lægð á Grænlandshafi í samvinnu við hæð við Bretland beina til okkar hlýju og röku lofti úr suðri um helgina.“
Svo segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, en gul viðvörun er í gildi víða um land fram á morgundaginn vegna úrkomu.
Í dag og á morgun verður ákveðin sunnan- og suðaustlæg átt ríkjandi með rigningu.
Talsverð úrkoma verður um tíma sunnan- og vestanlands. Segir að auknar líkur séu á vatnavöxtum í ám og skriðum á þeim slóðum og því um að ræða varasamt ferðaveður.
Yfirleitt verður úrkomulítið á Norðausturlandi og þar getur hiti náð yfir 20 stig.
Á morgun dregur smám saman úr úrkomu. Búast má við dálítilli vætu með köflum síðdegis en áfram rigning suðaustantil.
Bjart og hlýtt veður verður um landið norðaustanvert, en þar bætir heldur í vind.