Þórður Stefánsson hefur verið geitahirðir á Geitfjársetri Íslands á Háafelli í Hvítársíðu í Borgarfirði í sumar. „Ég vissi lítið um geitur þegar ég kom hingað í vor en þetta hefur verið frábær tími hjá góðu fólki með yndislegum dýrum,“ segir hann. „Ég bjóst við skemmtilegu starfi en þetta hefur farið fram úr björtustu vonum.“
Hjónin Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir og Þorbjörn Oddsson eru bændur á Háafelli og eiga og reka geitfjársetrið. Jóhanna eignaðist fyrstu geiturnar 1989 og ákvað fljótlega að byggja upp stofninn og kynna landsmönnum geitaafurðir. „Eftir 1999 var þetta árátta hjá mér, en þá voru bara fjórar geitur eftir af því geni sem gefur kollótt kið og brúna liti.“
Starfsemin óx, þau stofnuðu Geitfjársetur Íslands 21. júlí 2012 og hafa verið með um 200 vetrarfóðruð dýr og um 200 kiðlinga árlega. „Við höfum verið með samtals um 400 geitur í sumar,“ segir Jóhanna, sem er einn af stofnendum samtakanna Beint frá býli og fyrsti formaður þeirra. „Eftir val á lífkiðum fyrir okkur seljum við til annarra bænda og svo fer afgangurinn til slátrunar. Afurðir geitanna eru til dæmis ostar, ís, pylsur, sápur og græðandi krem. Auk þess er fiða geitanna fínasta kasmírull.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í gær, 30. ágúst.