Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir átak flokksins í hælisleitendamálum ekki snúast um útlendingaandúð.
Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins sagði Bjarni það hafa verið landinu mikil gæfa að hingað vilji koma öflugt fólk, leggja sitt af mörkum, vinna og auðga samfélagið.
Innflytjendur hafi borið uppi margar grundvallaratvinnugreinar landsins og þá eigi þjóðin svo sannarlega að bjóða velkomna áfram.
„Aftur á móti þá ætlum við ekki að gera Ísland að einhverju fyrirheitnu landi hælisleitenda. Það kemur ekki til greina.“
Það sé algjör forsenda þess að vera að fullu sjálfstæð þjóð, að Ísland hafi stjórn á landamærunum sínum. Um alla Evrópu séu ríkisstjórnir að bregðast við breyttum veruleika og þar sé Ísland engin undantekning.
„Engan barnaskap hér! Sömu lögmál, sömu verkefni, sömu hættur. Við verðum að halda vöku okkar,“ sagði Bjarni.
„Og eins og ég hef sagt hér áður, hér í þessum sal, þeir sem hafa fengið leyfi til að dvelja hér á Íslandi en ætla sér að hunsa reglur samfélagsins, þeir þurfa einfaldlega að fara.“