Og ég sá hann aldrei aftur

Danshöfundurinn Chantelle Carey opnar sig um kynferðisofbeldi í æsku. Hún …
Danshöfundurinn Chantelle Carey opnar sig um kynferðisofbeldi í æsku. Hún segir dansinn hafa hjálpað sér í gegnum áföllin. mbl.is/Ásdís

Chantelle kom eins og ferskur andblær inn í dansheiminn hér á landi þegar hún flutti hingað frá Bretlandi, en hér hefur hún verið í áratug, þótt fyrstu árin hafi hún flakkað á milli landanna. Chantelle kynnti íslenskum dönsurum fyrir heimsmeistarakeppnina í dansi, Dance World Cup, en þar hafa Íslendingar staðið sig með stakri prýði undanfarin ár og rakað til sín verðlaunum.  

„Ég er ákaflega þakklát fyrir að fá öll þessi góðu tækifæri sem ég hef fengið á Íslandi og fyrir allar sýningarnar sem ég hef fengið að taka þátt í,“ segir hún þar sem hún er stödd í Þjóðleikhúsinu að æfa dansarana fyrir Frost eftir sumarleyfi. 

Íslenska liðið stóð sig frábærlega

Í ár fóru 267 dansnemendur til Prag og flestir í fylgd með foreldrum og systkinum, þannig að íslenski hópurinn taldi sex til sjö hundruð manns.

„Við unnum fleiri medalíur en nokkru sinni fyrr, auk þriggja titla, þar á meðal silfur í heildarkeppni landana í flokknum „söng og dans“,“ segir Chantelle og segir íslenska liðið hafa staðið sig frábærlega.

„Fjórir íslenskir dansskólar unnu til verðlauna og margir aðrir voru í topp tíu. Gæðin í dansinum hafa aukist og það er ótrúlegt þar sem við upplifðum tvö ár af covid. Sem skipuleggjandi er ég mjög stolt að sjá öll þessi börn og ungmenni vera að standa sig vel og jafnvel skara fram úr,“ segir hún.

Íslenski hópurinn stóð sig vel á Dance World Cup í …
Íslenski hópurinn stóð sig vel á Dance World Cup í Prag í sumar.

Mikill tími fer í verkefnið á hverju ári, en Chantelle nýtur vinnunnar.

„Það er algjörlega þess virði. Hér er dansáhugi alltaf að vaxa og úrvalið af danstímum er sífellt að aukast,“ segir Chantelle sem sjálf kennir dans í fjórum dansskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem það er ekki nóg fyrir þessa orkumiklu konu rekur hún einnig dansbúðir á sumrin á Laugarvatni sem njóta mikilla vinsælda.

„Ég var með 75 krakka í sumar og danskennara frá Bretlandi, auk íslenska hópstjóra. Ég var að klára þessi námskeið og er nú mætt í Þjóðleikhúsið,“ segir hún.

„Það er svo gaman að hitta leikhópinn aftur og koma okkur í form eftir sumarfrí. Við sýndum hátt í sjötíu sýningar fyrir fullu húsi í vor og framundan er þétt keyrsla þar sem við munum hrífa nýja gesti,“ segir Chantelle.

„Svo verð ég nú að nefna að auk starfanna í leikhúsinu var ég danshöfundur í nýrri kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Ljósbroti, sem nú er sýnd í bíóhúsum. Myndin hefur verið tilnefnd til evrópskra kvikmyndaverðlauna í Cannes, og hefur nú þegar unnið til nokkurra verðlauna. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera hluti af þeirri mynd.”

Ég var bara barn

Við vendum kvæði okkar í kross og tölum um fortíðina og upphafið að dansferlinum. Líf Chantelle snerist á hvolf á unglingsárunum en danferillinn hófst í kjölfarið. Dansinn hefur verið hennar lífsbjörg síðan. Hún á að baki áfallasögu sem hún segir nú frá í fyrsta sinn.

„Ég hef verið beðin um það áður í viðtölum að segja frá þessu en hingað til hefur mér ekki fundist samfélagið tilbúið til að hlusta. En sem betur fer er staðan önnur nú,“ segir Chantelle.

„Ég hef ekki verið dansari allt mitt líf en það var kannski eðlileg þróun. Mamma var danshöfundur og umboðsmaður dansara og rak heimavistarskóla fyrir sjötíu nemendur. Hún lokaði skólanum þegar ég var tíu ára og við fluttum til Suður-Írlands þegar ég var ellefu ára en ég byrjaði að dansa tólf, þrettán ára. Ef ég á að vera hreinskilin hafði ég ekki mikinn áhuga í upphafi. Ég hafði miklu meiri áhuga á hestum og að ríða út, en ég mætti í tímana hjá mömmu því ég vildi ekki vera ein heima með pabba. Og það má segja að þess vegna hafi minn dansferill hafist,“ segir hún.

Chantelle hefur sannarlega fundið sinn stað í lífinu sem danshöfundur.
Chantelle hefur sannarlega fundið sinn stað í lífinu sem danshöfundur.

Ástæðan fyrir því að Chantelle vildi ekki vera ein með pabba sínum var sú að hann hóf að brjóta á henni kynferðislega þegar hún var ellefu ára gömul. Ofbeldið hélt áfram og versnaði sífellt.

„Ég var í kaþólskum stúlknaskóla og brotnaði niður í kapellunni, af öllum stöðum. Ég sagði loks tveimur vinkonum frá þegar ég var fjórtán ára og þær gerðu mér mikinn greiða. Þær sögðu að ef ég segði ekki mömmu minni frá myndu þær gera það. Ég sagði mömmu frá og hún trúði mér strax, sem er ekki sjálfgefið. Við fórum beint til lögreglunnar. Pabbi var handtekinn, settur í fangelsi og ég sá hann aldrei aftur,“ segir Chantelle.

„Hann svipti sig lífi í fangelsinu fjórum mánuðum síðar, áður en réttað var í málinu. Ég var þá fimmtán ára,“ segir Chantelle og segir alla fjölskylduna hafa lifað í mikilli þjáningu á þessum tíma.

„Tilfinningarnar voru mjög flóknar og ég var bara barn,“ segir hún.

Dansinn er mín þerapía

„Dansinn og að koma fram hefur hjálpað mér hundrað prósent og virkar nánast eins og þerapía. Í þessum bransa verður maður að finna leið til að trúa á sjálfan sig og ráðast á ótta sinn af öllu afli. Ástríða mín og minn ferill hefur litast af áföllum mínum í æsku, en ég er þakklát; ekki fyrir ofbeldið, heldur fyrir að hafa getað unnið mig út úr því og nýtt styrkleika mína til að skapa mér gott líf. Ég er oft ótrúlega hörð við sjálfa mig. En nú þegar ég á litla stelpu horfi ég öðruvísi á hlutina. Nú horfi ég til baka og get metið fortíðina á annan hátt en ég gat áður,“ segir Chantelle og segir gott ef saga hennar geti veitt öðrum styrk.

„Ég er ekki að fara að laga eða lækna neinn, en ef saga mín getur sýnt einhverri ungri manneskju hverju er hægt að áorka, þrátt fyrir að hafa lent í miklum áföllum, er það frábært. Kannski sér fólk að það er til leið til að halda áfram og það er hægt að ná árangri. En við erum öll á okkar eigin vegferð og engin vegferð er eins og önnur. Fyrir mig var dansinn þerapía og ég komst að því í gegnum dans og söngleiki hver ég var. Ég hef vissulega oft átt í innri baráttu, en dansinn hefur aldrei verið neitt sem ég hef efast um.“ 

Ítarlegt viðtal er við Chantelle í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka