Rómantískar stundir

Hjónin Kristín Ýr Pálmarsdóttir og Jónas Bjarni Árnason.
Hjónin Kristín Ýr Pálmarsdóttir og Jónas Bjarni Árnason. mbl.is/Árni Sæberg

Verktakafyrirtækið Afltak í Mosfellsbæ er 30 ára í ár. Hjónin Jónas Bjarni Árnason, húsasmíða- og rafvirkjameistari, og Kristín Ýr Pálmarsdóttir, húsasmiður í meistaranámi, hafa átt og rekið það frá 1997 en breytingar urðu eftir að þau keyptu meðeiganda sinn út 2010. Tvíburarnir Guðbjartur Geiri og Hafsteinn Helgi Grétarssynir bættust síðan í eigendahópinn með sín 10% hvor í árslok 2021.

Starfsmenn eru yfir 30 og verkefnin fjölbreytt; sérsmíði, margs konar þjónusta, viðhaldsvinna, nýbyggingar og rafverktaka. „Við höfum byggt upp góð viðskiptasambönd með heiðarleika og vandvirkni að leiðarljósi,“ segir Jónas og leggur áherslu á ánægju starfsfólks og viðskiptavina. Samvera þeirra hjóna í leik og starfi sé bæði skemmtileg og gefandi. „Við erum mjög samrýnd, áhugamálin eru þau sömu og okkur líður vel að vinna saman,“ áréttar Kristín.

Jónas kynntist húsasmíði hjá föður sínum, Árna Sigurjónssyni, sem rak ásamt öðrum Trésmiðjuna Rangá á Hellu. „Ég ólst þar upp, fékk strax áhuga á faginu og því lá beinast við að fara í húsasmíði.“ Eftir að hafa tekið sveinsprófið vann hann í Rússlandi 1994 og 1995. Að því loknu fór hann í meistaranámið. „Þá var lítið um störf og því fór ég að vinna sjálfstætt og hef gert það síðan.“

Húsasmíði fangaði líka Kristínu á barnsaldri. „Þegar ég var lítil var ég alltaf á trésmíðaverkstæðinu hjá pabba í Grundarfirði, naglhreinsaði fyrir hann, skóf timbur og raðaði skrúfum. Mig langaði til þess að vera arkitekt eða smiður en þá var ekki mikið um að konur lærðu þessi fög og því fór ég í hárgreiðslu.“ Hún hélt samt áfram að vinna hjá föður sínum, Pálmari Einarssyni, og tók sér meðal annars árs frí frá hárgreiðslu þess vegna í eitt ár. „Ég vann til dæmis við að skipta um þak á frystihúsinu í Grundarfirði og við smíði á heilsugæslunni.“

Hjónin við verk sem Aðalheiður S. Eysteinsdóttir á Siglufirði gerði …
Hjónin við verk sem Aðalheiður S. Eysteinsdóttir á Siglufirði gerði af þeim fyrir þau. mbl.is/Árni Sæberg

Flott ungt fólk

Kristín er framkvæmdastjóri Afltaks og byrjaði að sjá um bókhaldið 2010. Samfara vinnu á skrifstofunni hefur hún sinnt ýmsum smíðaverkefnum. „Ég byrjaði fljótlega að fara í ýmis verkefni með Jónasi eftir að við kynntumst, ekki síst um helgar, aðstoðaði hann við að parketleggja, slá upp sökklum, steypa, reisa hús og svo framvegis. Þetta voru okkar rómantískustu stundir.“ Nú sé hún meira í verkefnum á verkstæðinu eins og að smíða skápa og sprauta. „Ég á mjög erfitt með að sitja allan daginn við skrifborðið og finnst gott, ekki síst heilsunnar vegna, að geta breytt um stöðu og sinnt öðrum verkefnum.“

Yfir 30 nemar hafa lært hjá Jónasi, þar á meðal margar konur, og nú eru sjö á námssamningi. Kristín segist eitt sinn hafa haft orð á því við Jónas hvað gaman væri að sjá þessar glæsilegu stelpur útskrifast í faginu. „Þá spurði hann mig hvort ég vildi ekki bara slást í hópinn og ég ákvað að gefa mér sveinsprófið í 50 ára afmælisgjöf.“ Hún leggur áherslu á að konur eigi ekki að láta segja sér að þær geti ekki gert eitthvað. „Stelpur fá tækifæri hjá okkur til jafns við stráka til að læra fagið enda skiptir jafnrétti miklu máli. Það er líka mjög gaman að sjá þetta flotta unga fólk hjá okkur verða að frábærum fagmönnum,“ segir Kristín og bætir við: „Lífið hjá okkur snýst um smíðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert