„Allt of lengi höfum við látið það eftir að leyfa vinstrimönnum að skilgreina okkur. Hver við erum og fyrir hvað við stöndum.“
Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, og uppskar mikið lófatak á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins.
„Sumir segja að við eigum að vera meiri Viðreisn. Aðrir segja að við eigum að vera meiri Miðflokkur. Ég segi að við eigum að vera miklu meiri Sjálfstæðisflokkur.“
Rifjaði ráðherrann upp grein eftir konu úr gamla Alþýðuflokknum um að vinstrimenn hefðu barist fyrir kosningarétti fátækra. Þegar kjördagur hafi runnið upp og fólkið sem áður ekki fékk að kjósa hafi klætt sig upp og haldið á kjörstað hafi það kosið Sjálfstæðisflokkinn.
„Vinstra fólkinu fannst þetta ósvífni. Kunni þetta fólk ekki að sýna þakklæti? Veruleikinn var sá að á þessum tíma áttaði þetta fólk sig á því að það er samhengi milli verðmætasköpunar og lífskjara,“ sagði Áslaug.
Sagði ráðherrann það í forgangi að lækka vexti og ríkisútgjöld. Velferð byggist á framtaki einstaklinga og rekstri fyrirtækja. Sjálfstæðisflokkurinn berjist fyrir jöfnum tækifærum.
„Vinstriflokkurinn vildi hjálpa þeim að líða örlítið betur í fátæktinni en fólkið vildi út úr fátæktinni. Vinstrimenn hafa nefnilega trú á kerfinu, og kerfið hefur stundum trú á þeim, en við höfum trú á fólki.“