„Mikilvægt er að ráðherrar og þingmenn flokksins nýti þau tækifæri sem felast í því að ríkisstjórnin sé undir verkstjórn Sjálfstæðisflokksins.“
Svo segir í stjórnmálaályktun sem samþykkt var á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær.
Í ræðu sinni sagðist Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður flokksins, ætla að leiða ríkisstjórnina allt til enda. Alþingiskosningar fara fram eftir ár.
Í ályktuninni segir að forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar sé að stuðla að lægri verðbólgu og lækkun vaxta.
„Það verður aðeins gert með auknu aðhaldi í opinberum fjármálum, hóflegum kjarasamningum á vinnumarkaði og jafnvægi á húsnæðismarkaði. Fátt skiptir meira máli fyrir heimili og fyrirtæki á komandi misserum.“
Þá segir að bregðast verði hratt og örugglega við framboðsskorti á húsnæðismarkaði með því að stuðla að auknu framboði lóða, m.a. með stækkun á vaxtarmörkum höfuðborgarsvæðisins og einföldun laga og reglna um byggingar.
Á ýmsu er snert í ályktuninni svo sem útlendingamálum, orkumálum og menntamálum.
Flokksráðið undirstrikar mikilvægi þess að við framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði verkefnum forgangsraðað og að lagning Sundabrautar skuli vera sett í forgang.
Þá er borgarstjórn Reykjavíkur hvött til að taka önnur sveitarfélög sér til fyrirmyndar við lausn á alvarlegum mönnunarvanda sem skapast hefur í leikskólum „vegna fyrirhyggjuleysis á síðustu áratugum“.
Einnig er minnst á að Sjúkratryggingum Íslands skuli gert skylt að semja við einkareknar heilsugæslustöðvar á sömu forsendum og samið er við opinberar heilsugæslustöðvar.