Dýrmætt sakleysi sem kostaði Bryndísi Klöru lífið

mbl.is

„Bryndís Klara var ekki aðeins falleg, hún var ótrúlega einlæg, trúði engu slæmu upp á neinn og gerði aldrei mannamun. Það var þetta dýrmæta sakleysi sem kostaði hana lífið.“

Svo segir í Facebook-færslu Kristínar Stefánsdóttur, frænku Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést af sárum sínum á föstudag eftir hnífstunguárás á Menningarnótt, 17 ára gömul. 

Færslan er birt með leyfi foreldra Bryndísar Klöru, þeirra Birgis Karls Óskarssonar og Iðunnar Eiríksdóttur. 

Átti ekki að þurfa hafa áhyggjur af lífi sínu

„Þegar börn eru farin að ganga um vopnuð hnífum og deyða önnur börn er orðið eitthvað mjög alvarlegt að okkar litla samfélagi á Íslandi og kominn tími til að foreldrar og samfélagið allt vakni til ábyrgðar á andlegri líðan barna og því samfélagi sem við erum að kalla yfir okkur með því að gera ekki neitt,“ segir í færslu Kristínar. 

Hún ritar að Bryndís Klara hafi verið alin upp í „gamaldags íslensku samfélagi þar sem börn gátu verið örugg úti og eitt af því hættulegasta var að vera ekki með hjálm á reiðhjóli.“

„Hún þekkti ekki stríð, hún þekkti ekki hrylling, hún þekkti ekki dauðann. Hún þekkti bara Ísland eins og hún var alin upp í. Jú Ísland var og hefur verið að breytast hratt, en Bryndís Klara átti ekki að þurfa að búast við að á hana yrði ráðist með hníf af 16 ára vopnuðu barni.“

Kristín ritar að Bryndís Klara átti ekki að þurfa hafa áhyggjur af lífi sínu er hún hitti jafnaldra. 

„Þetta er ábyrgð okkar sem samfélags. Bryndís Klara var ekki aðeins Bryndís Klara okkar, hún var Bryndís Klara allra foreldra á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka