Elska að tala um hvali

Eilidh frá Skotlandi rannsakar háhyrninga við Íslandsstrendur og segir það …
Eilidh frá Skotlandi rannsakar háhyrninga við Íslandsstrendur og segir það sína köllun. mbl.is/Ásdís

Hin skoska Eilidh Sutherland O'Brien fékk áhuga á hvölum tveggja ára gömul. Sá áhugi dvínaði aldrei og hyggst nú Eilidh fara í doktorsnám þar sem hún vill rannsaka háhyrninga ofan í kjölinn.

Við hittumst eftir lokun Hvalasafnsins úti á Granda þar sem hún vinnur, en Eilidh fær aldrei nóg af því að tala um hvali. Hún er með meistaragráðu í sjávarlíffræði frá hinum heimsfræga háskóla St. Andrews og hefur stundað rannsóknir á hvölum, og þá aðallega háhyrningum sem eru í sérlegu uppáhaldi.

Ákvað ævistarfið fimm ára

Hvenær kviknaði þessi áhugi á sjávarspendýrum?

„Ég man það ekki því ég man ekki eftir að hafa ekki haft áhuga á þeim. Ég var kannski tveggja ára þegar áhuginn kviknaði fyrst, en vinur foreldra minna málaði veggmynd í herbergið mitt af höfrungi og undirheimum sjávarsins. Þannig að ég ólst upp með þessa mynd fyrir augunum og á svipuðum tíma sá ég líka teiknimyndina um Nemo. Ég var fimm ára þegar ég tilkynnti foreldrum mínum að ég ætlaði að verða sjávarlíffræðingur og ég skipti aldrei um skoðun eftir það.“

Námið í Skotlandi var fimm ár og endaði Eilidh með meistaragráðu, en hyggst nú sækja um styrki til að geta stundað doktorsnám við Háskóla Íslands. Þegar hún hafði verið nokkur ár í náminu kom hún hingað í skiptinám í eitt ár. Hér á landi kynntist hún kærasta sínum, tónlistarmanninum og tónsmíðanemanum Starra Holm.

Eftir skiptiárið þurfti Eilidh að fara aftur til Skotlands til að klára námið og eftir það flutti hún aftur til Íslands. Hún segist rétt hafa „sloppið“ inn áður en Brexit skall á.

„Ég fékk svo vinnu hér á safninu sem hefur verið frábært, enda elska ég að tala um hvali og hér fæ ég greitt fyrir það!“ segir hún og hlær.

„Ég er einnig að rannsaka háhyrninga með rannsóknarteymi í Vestmannaeyjum og fer þangað mánuð á hverju sumri. Þessi rannsókn hefur verið í gangi nánast frá 2008 og ég hef verið þar nú fjögur sumar í röð.“

Mjög flinkir að drepa

„Háhyrningar heilla mig rosalega,“ segir Eilidh sem verður ansi hrifinn þegar hún heyrir að blaðamaður hafi hitt Keikó á sínum tíma þegar hann kom til Vestmannaeyja, en hann var einmitt háhyrningur eins og flestir muna.

Spurð hvað heilli hana svona við háhyrninga, svarar hún:

„Allt við þá heillar mig. Þá má finna um allan heim og þeir eru efstir í fæðukeðjunni; sannkölluð rándýr. Hér á landi veiða þeir aðallega síld en í Suður Afríku hafa þeir veitt hákarla. Þeir eru svakalegir „veiðimenn“ og veiða annað hvort einir eða í hópum. Þeir hafa verið þekktir fyrir að veiða meira að segja steypireyð, stærstu skepnu heims!“ segir Eilidh og segir þá ekki drepa fólk, en á ensku heita háhyrningar Orca, eða Killer whales; semsagt drápshvalir.

Háhyrningar eru í uppáhaldi hjá Eilidh sem tók þessa mynd …
Háhyrningar eru í uppáhaldi hjá Eilidh sem tók þessa mynd í einni af rannsóknarferðum sínum í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Eilidh O’Brien/Icelandic Orca Project

„Hvað sem þú kallar þá, þá eru þeir mjög flinkir í að drepa,“ segir hún og brosir.

„Hér á landi halda háhyrningar sig aðallega á milli Vestmannaeyja og Snæfellsnes og elta þá fæðuna.“

Við deilum áhuga á veðrinu

Eilidh er alsæl á Íslandi og segir margt líkt með Skotum og Íslendingum. Hún hefur eignast fjölmarga vini hér, bæði erlenda og íslenska.

Eilidh segir margt líkt með Íslendingum og Skotum. 

„Í báðum löndum er sami þurri, svarti húmorinn. Svo deilum við áhuga á veðrinu og tölum stanslaust um veðrið,“ segir hún og hlær.

Eilidh hefur fundið sinn stað í lífinu, enda alltaf vitað hvert hún vildi stefna.

„Mig dreymir um að vinna hér við rannsóknir á háhyrningum en það er hægt að rannsaka þá endalaust, á meðan fjármagn er til. Á meðan ég bíð eftir því, vinn ég hér í Hvalasafninu og fræði fólk um hvali. En rannsóknir heilla mig mest og ég hlakka til að fást við þær í framtíðinni. Það er mín köllun.“

Ítarlegt viðtal er við Eilidh í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka