Gáfu Miðflokknum óvart vægi

Eiríkur Bergmann segir Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkin hafa veitt málflutningi Miðflokksins …
Eiríkur Bergmann segir Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkin hafa veitt málflutningi Miðflokksins lögmæti. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/Unnur Karen/AFP

„Það veitir málflutningi Sigmundar Davíðs og Miðflokksins lögmæti í augum fólks.“

Þetta segir Eiríkur Bergmann, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skól­ann á Bif­röst, um breyttan tón formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, um málefni aðkomufólks og breytta stefnu Samfylkingarinnar um sama málefni.

Spurður um stöðu flokksins í dag og sögulega lítið fylgi hans segir Eiríkur það liggja í augum uppi að flokkurinn sé í miklum vanda.

Bjarni hafi opnað á möguleika um að víkja frá

Helst sé það fréttanæmt að Bjarni opni á þann möguleika að hann muni ekki leiða flokkinn í næstu kosningum. 

Myndi það liggja við að varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, yrði arftaki hans og að staða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sé vissulega veikari eftir að hafa skorað sitjandi formann á hólm. 

„En við það að formaður sækist ekki eftir endurkjöri þá verður bara sjálfkrafa ákveðin uppstokkun sem að maður sér ekkert endilega fyrir í dag.“

Bjarni hafi ekki upplifað svo mikla andstöðu áður

„Flokkurinn er í miklum vanda og það er sótt að forystunni með hætti sem Bjarni hefur kannski ekki upplifað áður.“

Hann segir það ekki nýtt í sjálfu sér að Bjarni mæti andstöðu innan flokksins, enda hafi hann bæði mótframboð í tvígang. Það hafi aftur á móti aldrei verið svo megn óánægja með stöðu flokksins undir hans formennsku.

Þrátt fyrir að fylgistölurnar séu þær lægstu frá stofnun flokksins sé ekki nýtt að mikillar óánægju með forystuna gæti innan flokksins.

„Þetta minnir eiginlega bara á stöðu Þorsteins Pálssonar á sínum tíma og kannski Geirs Hallgrímssonar.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á flokksráðsfundi í gær.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á flokksráðsfundi í gær. mbl.is/Ólafur Árdal

Breyttur tónn hafi haft öfug áhrif

Spurður hvaða áhrif sú óánægja kunni að hafa innan flokksins, segir Eiríkur það kunna að leiða ýmislegt af sér. Margir muni eflaust staldra við það að flokkurinn hafi hleypt Miðflokknum fram úr sér í málefnum aðkomufólks.

Eiríkur telur aftur á móti sjálfur að breyttur tónn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar um málaflokkinn hafi að einhverju leyti haft öfug áhrif og fært fylgið frá Sjálfstæðisflokknum yfir til Miðflokksins og jafnvel að einhverju leyti stöðvað ris Samfylkingarinnar.

Sjónarmið og málflutningur Miðflokksins sem séu í harkalegri andstöðu við streymi aðkomufólks hafi verið nokkuð sem flestallir hafi staðið gegn til þessa.

„Með því að taka undir málflutninginn þá ná flokkarnir ekki þessu fylgi til sín heldur veita upphafsmanni málflutningsins lögmæti.“

Hægt að deila um hvor sé meiri hægriflokkur

Hótfyndni formannsins í garð andstæðinga sinna, Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar og einna helst formanns Miðflokksins, Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, á flokksráðsfundinum í gær sé eftirtektarverð og endurspegli hverjar helstu ógnir flokksins séu.

„Ég er ekkert alveg sannfærður um hvaða áhrif það mun hafa fyrir hann.“

Ljóst sé að Samfylkingin sé helsti pólitíski andstæðingur flokksins en Miðflokkurinn helsta ógnin við fylgi hans. Deila megi um hvor flokkurinn sé meira til hægri menningarlega en Bjarni tók fyrir að Miðflokkurinn og Sigmundur Davíð sjálfur væru hægrisinnaðir.

„Það fer eftir því hvað átt er við með hægristefnu. Þessi skali hann hefur meira en eina vídd,“ segir Eiríkur.

„Það er til efnahagsleg hægristefna og þar held ég nú að Sjálfstæðisflokkurinn sé hennar helsti málsvari. En síðan er líka þessi hugmynd um menningarlega hægristefnu sem er þjóðrækni, ströng landamæragæsla og svona félagsleg íhaldsstefna. Þar held ég að það sé hægt að deila um hvor sé meiri hægriflokkur.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka