Gasmengun mældist í Hvalfirði

Búast má við því að mengun leggist yfir höfuðborgarsvæðið og …
Búast má við því að mengun leggist yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskagann á morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Búast má við því að mengun leggist yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskagann á morgun. Gasmengun mældist í Hvalfirðinum í dag en þó ekki mikil.

Engin gasmengun hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu í dag og lítil sem engin á Reykjanesskaganum að sögn Minneyjar Sigurðardóttur, náttúruvársérfræðingi Veðurstofu Íslands.

„Það er sunnanátt í dag svo gasmengunin fer yfir Faxaflóann, en það er mjög lítið að mælast.“ segir Minney.

Vindátt breytist á morgun

„Á morgun held ég að það geti orðið meiri mengun á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesinu þegar vindur snýst.“

Einnig séu líkur á að dragi úr vindi á morgun og því megi búast við því að mengunin leggist yfir borgina og Reykjanesskagann.

„Ekkert í neinum háum gildum tel ég. Það er betra að fylgjast aðeins með vindinum og sjá hvernig styrkurinn verður,“ segir Minney og bætir við að Veðurstofan muni veita nánari upplýsingar í fyrramálið.

Aðspurð segir ósköp litla breytingu á gosinu. Eins og er sjáist lítið í gosstrókana en virkni komi í bylgjum svo það segi lítið um hvort farið sé að draga úr virkni gossins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert