Hver hefur drepið mann – á Ísafirði?

Geymir Eyri við Skutulsfjörð svo myrk leyndarmál sem Satu Rämö …
Geymir Eyri við Skutulsfjörð svo myrk leyndarmál sem Satu Rämö ýjar að, ber á borð og kryfjar til mergjar? Að því komumst við líklega aldrei. Þannig er skáldskapur, hann sýnir okkur örlítið inn í heiminn handan skynjunarinnar – en bara örlítið. Þess vegna er hann skáldskapur. Ljósmynd/Isafjordur.is

„Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó.“

Margur Íslendingurinn kannast við annálaða málsvörn Reinarbóndans og snærisþjófsins Jóns Hreggviðssonar í meðförum skáldsins frá Gljúfrasteini – þó ekki væri nema að lesandinn hafi verið píndur til að lesa verkið í skyldunámi. Varla rýrir það vægið.

Vita finnskir rithöfundar svarið við hinni meitluðu spurningu bónda? Hér er einn sem ef til vill er kominn eitthvað áleiðis. Vestfirðir eru sögusviðið – skáldkonan byggir gátur sínar á raunverulegum sögum Íslendinga – broti héðan og broti þaðan.

„Já, nú er sú fyrsta komin út á íslensku og þær eru alls þrjá komnar út og sú fjórða á leiðinni,“ segir finnski rithöfundurinn, blaðamaðurinn og leiðsögumaðurinn Satu Rämö sem hefur hreinlega slegið í gegn á örstuttum ferli sínum sem glæpasagnahöfundur en fyrsta bók hennar um rannsóknarlögreglukonuna Hildi Rúnarsdóttur kom út á finnsku árið 2022.

Nú eru í bígerð sjónvarpsþættir í samvinnu við finnska framleiðslufyrirtækið Take Two og Saga Film á Íslandi sem byggja á fyrstu bókinni, tökur hefjast samkvæmt áætlun á vori komanda, auk þess sem Finnar hafa þegar skrifað hana yfir í leikritshandrit og verður það verk frumsýnt í Finnlandi í nóvember. Gerðu hvorki fleiri né færri en þrettán finnskir framleiðendur tilboð í þáttagerðina.

101 árs amman fallegust

Bækur Satu, sem hefur verið búsett á Íslandi um tveggja áratuga skeið, þar af lengi á Ísafirði með manni sínum Björgvini Hilmarssyni, líffræðingi, ljósmyndara og fjallaleiðsögumanni, hafa nú þegar verið þýddar á fimmtán tungumál og fleiri bíða rétt handan hornsins.

Fyrsta bókin hennar, í íslenskri þýðingu Erlu Elíasdóttur Völudóttur sem Satu kveðst himinlifandi með, fór rakleiðis í fyrsta sæti metsölulista Eymundssonar yfir allar bækur auk þess sem fyrstu þrjár bækurnar hafa selst í 600.000 eintökum í Finnlandi og að auki notið mikilla vinsælda glæpasagnaþyrstra Þjóðverja.

Hildur fór rakleiðis í fyrsta sætið yfir alla flokka á …
Hildur fór rakleiðis í fyrsta sætið yfir alla flokka á metsölulista Eymundssonar, verk finnsks höfundar sem spyr sig hér í viðtalinu hvernig hún læsi glæpasögu fransks höfundar með finnskt sögusvið. Hvort skoðum við fyrst, söguþráðinn eða hvernig erlendur höfundur skynjar íslenska þjóð? Skjáskot/Forlagið

„Fallegasta gagnrýni sem ég hef fengið um fyrstu bókina kom til mín á Instagram sumarið 2022. Þar biðu mín skilaboð frá konu sem sagði mér að 101 árs gömul amma hennar hefði lesið bókina og svo sagt barnabarni sínu að hún vonaðist til að lifa þar til næsta bók kæmi út, hana langaði svo að vita hvað gerðist næst í lífi Hildar,“ segir rithöfundurinn hrærður en Satu talar nánast lýtalausa íslensku eftir búsetu sína á landinu enda sjálf alin upp við tungumál með heiftarlegri málfræði og fjórtán föllum nafnorða.

„Mér finnst svo gaman að fá nýjan lesendahóp sem les glæpasögur,“ segir Satu en í samstarfi þeirra Björgvins hefur fjöldi ferðabóka um Ísland komið út í Finnlandi og notið þar vinsælda auk þess sem Satu hefur skrifað fréttir frá Íslandi í finnska fjölmiðla, rekið auglýsingastofu og finnsku hönnunarverslunina á Íslandi svo eitthvað sé nefnt.

Myrkur og snjór – kokteill kölska

Bækurnar um Hildi lögreglukonu gerast í þvottekta íslenskum, myrkum og snævi þöktum raunveruleika Vestfjarða með Ísafjörð sem meginsögusvið, „þar sem snjórinn og myrkrið geyma ógnvænleg leyndarmál“, svo gripið sé niður í lýsingu Forlagsins á þeirri bók sem nú hefur litið dagsins ljós á íslensku.

„Ég veit ekkert um sjónvarpsþáttagerð og kem í raun ekkert nálægt henni, einbeiti mér bara að bókunum,“ segir Satu og hlær, „ég vil alla vega ekki blanda sjálfri mér í svona stórt verkefni strax, einn finnskur og einn íslenskur handritshöfundur skrifa þættina,“ heldur hún áfram, en það er Margrét Örnólfsdóttir sem hefur veg og vanda af hlut Íslands í þessu samstarfi. Finnski handritshöfundurinn Matti Laine annast hins vega hinn finnska hluta skrifanna.

„Það sama gildir um leikritið, ég hef rætt við leikarana og farið yfir það með þeim hvernig manneskjur persónurnar mínar í bókinni eru. En á frumsýningunni ætla ég sko bara að setjast niður með rauðvínsglas og njóta sýningarinnar,“ segir Satu glaðbeitt og á bágt með að leyna tilhlökkun sinni enda fer stór hópur frá Ísafirði, þar á meðal Arna Lára Jónasdóttir bæjarstjóri, til Finnlands á frumsýninguna í nóvember, ásamt fjölda vina sem Satu hefur eignast í bæjarfélaginu vestfirska.

Satu ætlar sko bara að setjast niður með rauðvínsglas á …
Satu ætlar sko bara að setjast niður með rauðvínsglas á frumsýningu leikritsins um Hildi í Finnlandi. Lái henni hver sem vill... Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

Útlendingur að skrifa íslenskan raunveruleika

„Ég er svo ánægð með þennan áhuga, síðustu tvö árin hafa verið gríðarleg vinna og nú gerist allt þetta á sama tíma,“ segir Satu sem með skrifum sínum um myrkar hliðar mannlífsins í skálduðum veruleika snjóþungra Vestfjarða hefur vakið athygli lesenda í fimmtán löndum auk þess að vekja athygli sjónvarpsþátta- og leikhúsfólks sem brennur í skinninu að veita ævintýrum Hildar Rúnarsdóttur ofan í glæpasagnaþyrsta Finna eftir fleiri leiðum en prentaðar blaðsíður í bók bjóða.

Hvernig upplifðirðu það eiginlega að fara rakleiðis í fyrsta sæti íslensks metsölulista eftir að íslenska þýðingin leit dagsins ljós?

„Mér fannst það svo flott,“ svarar Satu um hæl, „bækurnar hafa notið vinsælda í Finnlandi og Þýskalandi svo ég var mjög spennt fyrir útkomunni á Íslandi. Ég er útlendingur sem er að skrifa íslenskar glæpasögur sem Finnar blandast í og gerast á Vestfjörðum. Hvernig mun fólk taka þessu?“ spyr hún og nefnir aðstæður úr hennar finnska raunveruleika.

„Ef ég læsi glæpasögur eftir Frakka sem búið hefur lengi í Finnlandi og þær gerðust þar spyrði ég mig alltaf fyrst og fremst hvort ég væri bara að lesa glæpasögu eða hvort ég væri raunverulega bara að lesa um hvernig hann talar um landið mitt. Það eru svo margar tilfinningar sem geta blandast inn í þetta,“ segir höfundurinn finnski.

Systurnar sem týndust

Engir ritdómar hafa enn verið formlega skrifaðir um Hildi á Íslandi en Satu kveðst hafa fundið fyrir mjög jákvæðum bylgjum. „Fólk spyr mig hvenær næsta bók komi út á íslensku og það er gaman, fjórða bókin kemur út í Finnlandi núna í nóvember,“ segir Satu sem óneitanlega verður að teljast afkastamikill rithöfundur með fjórar glæpasögur á rétt rúmum tveimur árum.

Blaðamann fýsir að vita hvernig þessum nýbakaða glæpasagnahöfundi gangi að hugsa upp söguþræði bóka sinna, hvernig myrkur íslenskur raunveruleiki verði til í huga finnsks höfundar sem þó hefur orðið mjög sterka tengingu við landið. Ef til vill eru Finnar sú Norðurlandaþjóð sem næst stendur Íslendingum í skapgerð og hugsunarhætti þótt þeir séu reyndar margfalt klárari í borgarhönnun eins og höfuðborgin Helsinki ber fagurt vitni.

Íslendingar og Finnar eru ekki svo ólíkir. Þessar þjóðir þekkja …
Íslendingar og Finnar eru ekki svo ólíkir. Þessar þjóðir þekkja ískulda...líka þann sem býr í sálartetrinu hvers innstu rök kannski enginn skilur til fulls. Hvað ýtir okkur yfir þá nöf að við drepum vegna gamals ósættis, gamals harmleiks, gamals leyndarmáls? Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

„Fyrir mig skipta persónur í lífinu mestu máli. Hildur er rannsóknarlögreglukona á Vestfjörðum. Hún á systur sem týndust þegar hún var barn og hún þráir að komast að því hver örlög þeirra urðu. Svo kemur Jakob til sögunnar, finnskur lögreglunemi sem ákveður að fara í starfsnám til Íslands, finnskir lögreglunemar þurfa raunverulega að fara í starfsnám,“ segir Satu frá.

Jakob þessi kemur til Ísafjarðar og þau Hildur verða vinnupar og tekst með þeim vinskapur. Jakob burðast hins vegar við fortíðarvanda, finnskar flækjur sem á hann leita og raunveruleg ástæða þess að hann sóttist eftir að komast í starfsnám til Íslands var að lægja þær öldur innra með sér – gleyma um stund, jafnvel leysa þann gordíonshnút sem bundinn er í brjósti hans.

Dráp fer ekkert...

„Ég hef líka fengið þau viðbrögð frá fólki að það hafi gaman af að lesa um líf sögupersónanna, ýmislegt er að gerast í lífi þeirra sem fylgir með og lesendur tengja við þetta, segjast til dæmis vera með svipuð fjölskyldumál. Þetta er ekki bara morð og hver drap hvern. Það sem ég hugsa er af hverju drepur einhver einhvern annan. Dráp er svo stór glæpur, hann fer ekkert. Ef þú drepur einhvern er hann eða hún dáin og ég spái mikið í aðdragandann og ástæðuna. Hvers vegna drepur fólk?“ veltir Satu upp.

Hún kveðst mikill aðdáandi norska glæpasagnahöfundarins Jos Nesbøs en hins vegar dytti henni ekki í hug að skrifa sögur af svo ofbeldisfullum raðmorðingjum sem eru hugarfóstur þess óskabarns norskra glæpasagnaunnenda sem Nesbø hefur með árunum orðið. „Það er fáránlega gaman að lesa bækurnar hans en ég held mig meira við eitthvað sem gæti gerst á Íslandi og það sem liggur að baki glæpnum, einhver fjölskyldusaga eða harmleikur, kannski eitthvað sem gerðist fyrir löngu,“ segir rithöfundurinn finnski.

Lúpínur í forgrunni með blýgráan himin að baki. Hin eilífa …
Lúpínur í forgrunni með blýgráan himin að baki. Hin eilífa barátta ljóss og skugga, haturs og kærleika. Gróðrarstía glæpasögunnar. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

Aðspurð segir hún söguþráð glæpasagnanna gjarnan spretta af einhverju sem hún sjálf hefur heyrt af. „Ég skrifaði ferðabækur í mörg ár og hef hitt fjölda Íslendinga og spurt þá hvernig sé að búa þar sem þeir búa og forvitnast um líf þeirra. Af hlutum sem hafa gerst í þeirra lífi hef ég byggt mínar sögur að hluta. Það er allt annað en að skrifa ferðabækur sem eiga bara að vera skemmtilegur og jákvæður fróðleikur,“ segir Satu af myndun söguþráða.

Þannig fléttar Finninn saman glæpasagnaveruleika sínum og aðstæðum sem raunverulegir óskáldaðir Íslendingar hafa staðið frammi fyrir – eða þeirra ættingjar – einhvern tímann, jafnvel fyrir langalöngu. Flétta sögunnar verður ekki verri fyrir vikið, blanda skáldskapar og blákalds íslensks veruleika.

Úti að hlaupa eða á skíðum

„Oft hef ég heyrt fáránlegar sögur en líka ótrúlega áhugaverðar og ég nota það sem ég hef heyrt. Þetta blandast svo kannski saman hjá mér, engin ein saga kannski, en brot úr þessari og brot úr hinni,“ segir Satu. Öll árin sem hún hafi ferðast um Ísland og skrifað ferðabækur hafi hún rætt við fjölda fólks um fjölbreytilegustu efni. „Ég hef unnið mun lengur á Íslandi en í Finnlandi í ferðabókageiranum,“ segir finnski höfundurinn kíminn.

Hún segir söguþráð hverrar bókar svo mótast í huga hennar á um það bil tveimur eða þremur mánuðum án þess að hún hafi hugann sérstaklega við mótunina. „Ég er kannski bara úti að hlaupa eða á skíðum,“ segir hún og bætir því við að meðan á þessu ferli standi skrifi hún ekkert hjá sér heldur leyfi söguþræðinum að verða til og festast henni í rólegheitum í minni.

Finnar eru klárir að skipuleggja borgir og ríkisstjórn þeirra var …
Finnar eru klárir að skipuleggja borgir og ríkisstjórn þeirra var ein þeirra fyrstu pappírslausu í heiminum fyrir löngu...eða það segir Efnahags- og framfarastofnun Evrópu. Við Íslendingar tengjum grannþjóðina góðu stundum við ást í garð brennivíns og leiðinlega stjórnmálamenn – sem að sögn finnskra stjórnmálaskýrenda er kostur. Eiga Finnar ef til vill glæpasagnahöfunda sem lesa íslenska þjóðarsál eins og opna bók? Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

„Eftir þetta tímabil skrifa ég ágrip af sögunni með því sem ég hef verið að hugsa um, það tekur nokkrar vikur, og svo skrifa ég bókina á tveimur mánuðum. Þannig er ég þrjá mánuði að hugsa hverja bók upp og þrjá mánuði að skrifa hana,“ segir Satu af þessum meitluðu vinnubrögðum sem geta af sér þær bækur sem slegið hafa í gegn – meitluðum rétt eins og þeirri spurningu bóndans frá Rein sem slegið var fram í upphafi.

Blaðamanni sýnist ekki örgrannt um að Íslendingar muni á komandi árum sjá og lesa meira frá finnsku skáldkonunni sem skrifar af innsæi um örlög, sorgir og banvænar hvatir Íslendinga – miklu meira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert