Hvött til frekari dáða

Handhafar viðurkenninganna í ár hægra megin á myndinni en þeir …
Handhafar viðurkenninganna í ár hægra megin á myndinni en þeir Páll Ragnar Pálsson formaður STEFs og Bragi Valdimar Skúlason varaformaður klappa þeim lof í lófa. Ljósmynd/Aðsend

„Verðlaunahafar eiga það sameiginlegt að hafa upp á síðkastið sýnt ört vaxandi árangur sem tónhöfundar,“ segir í rökstuðningi STEFs um verðlaunatónhöfunda ársins sem höfundarréttarsamtökin hafa ákveðið að veita sérstakar viðurkenningar fyrir eftirtektarverða frammistöðu á tónsviðinu.

Eftir því sem STEF greinir frá í fréttatilkynningu er mælistikan öðru fremur umtalsverð aukning í úthlutun höfundarréttargjalda sjóðs samtakanna en bryddað var upp á þeirri nýbreytni í ár, á árlegum menningarnæturtónleikum þeirra, að verðlauna þá efnishöfunda sem skarað hafi fram úr að þessu leyti.

„Með viðurkenningum vill stjórnin hvetja þessa höfunda til frekari dáða,“ segir enn fremur í tilkynningunni sem kynnir verðlaunahafana þrjá, Önnu Grétu Sigurðardóttur, Ásgeir Braga Ægisson og Katrínu Helgu Ólafsdóttur, með svofelldum orðum:

Anna Gréta hefur verið búsett í Svíþjóð undanfarin ár, en hún var útnefnd „bjartasta vonin“ í jazz-geiranum á ÍTV árið 2015 – og hefur síðan hlotið fleiri tilnefningar og verðlaun, jafnt hér og í Svíþjóð. Hefur hún nú skipað sér á bekk meðal fremstu jazzmúsíkanta sinnar kynslóðar og sent frá sér tvær plötur hjá einni þekktustu jazzútgáfu heims (ACT Music), sem báðar hafa hlotið lof gagnrýnenda.

Ásgeir Bragi er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. 17 ára gamall tók hann að semja og senda frá sér tónlist undir listamannsnafninu „Ouse“. Í kjölfarið fluttist hann til Akureyrar og síðar Reykjavíkur til að geta sinnt ferlinum betur. Á síðastliðnum árum hefur hann starfað með ýmsum erlendum flytjendum, aðallega Bandarískum, en um skeið bjó hann í Los Angeles. Tónlist hans mætti helst skilgreina sem n.k. „hip-hop“, en lögum eftir hann hefur verið streymt í milljónavís, þar af er eitt þeirra, „Dead Eyes“, með yfir 100 milljón spilanir á Spotify.

Katrín Helga nam tónsmíðar við Listaháskólann. Hún hefur á undanförnum árum gert sig gildandi undir listamannsnafninu „K.óla“ og troðið upp ýmist ein eða með hljómsveit. Árið 2019 hlaut hún ÍTV-tilnefningu og Kraumsverðlaunin fyrir plötuna „Allt verður alltílæ“. Síðan hefur hún látið víða að sér kveða, m.a. samið fyrir kvikmyndir og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig var Katrín virkur meðlimur tónlistarsamlagsins „post-dreifing“ árin 2018-2022, eða uns hún flutti búferlum til Kaupmannahafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert