Munu ekki fylgjast með ferðum borgaranna

Framkvæmdastjóri Betri samgangna segir enga hættu á að fylgst verði með ferðum fólks þegar umfangsmikill myndgreiningarbúnaður verður settur upp til að innheimta umferðar- og tafagjöld í borginni.

Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum varðandi innheimtu umferðar- og tafagjalda sem lögð verða á og skila eiga 13 milljörðum króna til fjármögnunar samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu, verður fyrrnefndum búnaði beitt.

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna er spurður út í þetta í Spursmálum þar sem sáttmálinn og fyrirhuguð borgarlína voru í brennidepli.

Orðaskiptin um þetta mál má sjá í spilaranum hér að ofan en einnig eru þau rakin í textanum hér að neðan.

Ungir sjálfstæðismenn á móti

Þið voruð einu sinni ungir sjálfstæðismenn, þótt kannski margir myndu halda að þið séuð það enn. Á vettvangi þess sambands man ég Davíð, að þú barðist mjög gegn því að menn væru að setja upp aukin myndavélakerfi í miðbænum, að það væri þannig að ríkið væri að fylgjast meira með borgurunum en góðu hófi gegndi, það væri skerðing á einkalífi fólks. Þessi umferðar- og tafagjöld verða sennilega innheimt með því að taka myndir af bílnúmerum fólks þar sem það ekur inn og út af svæðum. Er þetta ekki einmitt dæmi um það hvernig við viljum sporna við því að ríkið geti rakið ferðir okkar frá einum tíma til annars.

„Þetta er gert með myndgreiningarbúnaði í Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og víðar. Mjög víða í heiminum. Við búum á Íslandi við ströngustu persónuverndarlöggjöf líklega í heimi. Við ákváðum að taka hér upp GDPR og gera það aðeins flóknara þannig að það er ekkert mál að tryggja það að þetta verði allt öruggt. Og það sé bara verið að greina bílnúmerin til þess að hægt sé að fara í innheimtu með það. En að það sé ekki verið að fylgjast með ferðum fólks, það er alveg hægt að passa það.“

Davíð Þorláksson segir að myndavélakerfið muni ekki nýtast til þess …
Davíð Þorláksson segir að myndavélakerfið muni ekki nýtast til þess að fylgjast með ferðum borgaranna. Samsett mynd

Upplýsingarnar dulkóðaðar

En þú fylgist með ferðum fólks ef þú veist hvar bíllinn er.

„Jú en þetta er hægt að gera í gegnum dulkóðaðan gagnagrunn þannig að það hafi enginn aðgang að þvi með hvaða hætti fólk er að ferðast.“

Í greinargerð viðræðuhóps ríkis og sveitarfélaga sem gerð var opinber nú í ágúst í tengslum við uppfærðan samgöngusáttmála segir um umferðar- og tafagjöldin meðal annars:

„Gjaldtakan yrði framkvæmd með sjálfvirkri myndgreiningu þannig að bílferðir um valdar götur sem tengja afmörkuð valin svæði verði skráðar með myndavélum sem taka munu myndir af bílnúmerum. Áhersla yrði á svæði þar sem umferð er mikil og gott aðgengi að öðrum samgönguvalkostum. Ekki er búið að útfæra hvernig gjaldtöku yrði háttað en til greina kemur að hafa hámarksgjald á sólarhring fyrir stórnotendur. Allir sem aka um þessi svæði myndu þurfa að greiða gjald að undanþeginni umferð neyðarbifreiða og bifreiða sem sinna opinberum almenningssamgöngum.“

Viðtalið við Ásdísi og Davíð má sjá í spil­ar­an­um hér að neðan. Auk þeirra mættu í þátt­inn þau Her­mann Nökkvi Gunn­ars­son blaðamaður og Ólína Kjer­úlf Þor­varðardótt­ir, for­seti fé­lags­vís­inda­deild­ar Há­skól­ans á Bif­röst.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka