Réttindi borgara falli milli skips og bryggju

Skúli Magnússon fráfarandi umboðsmaður Alþingis.
Skúli Magnússon fráfarandi umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skúli Magnússon, fráfarandi umboðsmaður Alþingis, segir að ef samstarf ráðherra í ríkisstjórn og ráðuneyta þeirra sé ekki viðhlítandi er þess ekki að vænta að stofnanir ráðuneytanna starfi vel saman. Nefnir hann rafvopnamál lögreglu sem dæmi.

„Þetta veldur hættu á því að það séu réttindi sem Alþingi hefur tryggt borgurunum sem þeir einfaldlega ekki fá fullnustað. Þeir falla á milli skips og bryggju í kerfinu,“ sagði Skúli á Sprengisandi.

Nefnir rafvopnamál lögreglu sem dæmi

Í nýbirtri ársskýrslu umboðsmanns Alþingis er mál rafvopna lögreglu nefnt í þessu samhengi.

„Það mál í sjálfu sér frá sjónarhóli umboðsmanns snerist ekki um rafvopn heldur snerist um það að þar hafði dómsmálaráðherra ákveðið að setja reglur, rýmka heimildir lögreglunnar að þessu leyti, án þess að bera málið upp í ríkisstjórn áður,“ sagði Skúli og hélt áfram:

„Það virtist ljóst að það var ekki full samstaða um málið í ríkisstjórninni. Forsætisráðherra tjáði sig um málið með þeim hætti að það mátti skilja það þannig að hún hafði hvorki vitað af þessu máli né hafði ráðherra haft samráð við hana.“

Ráðherrar skiptist of oft á skoðunum opinberlega

Skúli benti á að vettvangurinn sem ríkisstjórnin er sé ekki bara formlegheit heldur eigi þar að fara fram pólitískt samráð.

Eftir samráð eigi ríkisstjórnin að stilla saman strengi sína og reyni að koma fram sem ein heild fremur en að skiptast á skoðunum í fjölmiðlum og segir það hafa gerst alltof oft. 

„Það er til þess fallið að rýra trúverðugleika ríkisstjórnarinnar og tiltrú almennings á æðstu stjórnvöldum landsins,“ segir Skúli.

Skúli segir ýmis vandamál varðandi fullnustu laga koma upp ef samhæfing og samstarf er ekki tryggt. Það sé forsætisráðherra sem eigi að vaka yfir þessu samstarfi en að vandinn birtist á öllum stigum stjórnkerfisins.

„Þetta getur birst í því að fangelsið á Litla hrauni komi ekki fanga sem er í geðrofi inn á bráðamóttöku geðdeildar, að Stuðlar geti ekki komið börnum inn á Bugl og að einstaklingur sem á rétt á félagslegu húsnæði hjá sveitarfélagi fær það ekki og getur ekki leitað til ráðuneytis til að fá þennan rétt fullnustaðan.“

Embætti umboðsmanns Alþingis er laust til umsóknar en Skúli tekur við embætti dómara við Hæstarétt Íslands 1. október. Forsætisnefnd Alþingis mun tilnefna næsta umboðsmann fyrir lok þessa mánaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert