Skúli Magnússon, fráfarandi umboðsmaður Alþingis, segir mikilvægt að draga lærdóm af heimsfaraldrinum og þeim ráðstöfunum sem gripið var til. Hann spyr hvort viðhorf stjórnvalda til inngrips í grundvallarréttindi borgara sé léttvægari eftir heimsfaraldurinn.
„Það er umboðsmaður sem hefur svolítið verið að halda því á lofti að covid-tímabilið og þær ráðstafanir sem gripið var til þá sé eitthvað sem þurfi að skoða og draga lærdóm af til framtíðar. Það hafa nú ekki margir tekið þeim boðskap fagnandi,“ sagði Skúli á Sprengisandi í dag.
Nefndi Skúli ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum þess efnis að banna ótímabundið að börn færu að gosstöðvunum í Meradölum. Sagði hann það áhugavert í ljósi heimsfaraldursins.
Umboðsmaður Alþingis sagði í áliti sínu að það yrði að finna banninu annan lagagrundvöll til lengri tíma.
„Þarna eru menn að fara með heimildir sem byggjast á neyðarréttargrunni og þessar heimildir eiga það sameiginlegt að þarna hafa stjórnvöld mikið svigrúm og það er auðvitað þannig að við ætlumst til þess að stjórnvöld bregðist við yfirvofandi hættu.“
Skúli segir stjórnvöld hafa heimildir til þess að bregðast við sem hvíli á lögum um almannavarnir, lögreglulögum, sóttvarnarlögum svo dæmi séu tekin.
„Ég spyr: Breyttist viðhorf stjórnvalda að einhverju leyti til notkunar svona heimilda? Ég hef bent á það í mínum skýrslum að sú hætta sé fyrir hendi að stjórnvöld fari að líta á inngrip inn í grundvallarréttindi sem léttvæg og jafnvel sjálfsögð,“ sagði Skúli.
Þegar einhver staða komi upp sé gripið til þess að bjóða og banna. Ekki sé hugað að því að þarna sé verið að ganga inn í grundvallarréttindum og að það beri að gæta meðalhófs.
„Í covid var auðvitað heilsa fólks ekki einu hagsmunirnir. Þetta voru mikilvægir hagsmunir en það voru aðrir hagsmunir fyrir hendi. Eftir því sem tíminn líður þá breytist staðan og við gerum meiri kröfur til þess að löggjafinn grípi inn í og málin fari í eðlilegt ferli. Við viljum ekki að landinu sé stjórnað á neyðarréttargrundvelli svo árum skiptir.“
Skúli sagði að á það sé bent í barnabanns-málinu að þetta geti verið heimilt í skamman tíma. Ef þetta eigi að vera viðvarandi ástand verði mál að fara í eðlilegan stjórnskipulegan farveg.
„Það er Alþingi sem á að fjalla um viðvarandi skerðingar eða íþyngjandi reglur gagnvart borgurunum,“ sagði Skúli.
Nýr umboðsmaður Alþingis verður tilnefndur af forsætisnefnd Alþingis fyrir lok septembermánaðar. Skúli tekur við embætti dómara við Hæstarétt Íslands 1. október.