Aðstaða fyrir tónlistarnám og verknámskennslu, bókasafn, skólaeldhús, mötuneyti nemenda og aðstaða starfsfólks eru í nýrri byggingu grunnskólans á Hellu sem nú er verið að reisa. Þetta er 2.700 fermetra hús sem áformað er að verði tilbúið að ári. Þetta er 2. áfangi í uppbyggingu á skólasvæðinu á Hellu. Kominn er í notkun 1. áfangi, byggingu hvar eru 4 til 6 kennslustofur.
Þriðji áfanginn verður svo bygging nýs leikskóla, sem verður þar sem nú er íþróttavöllur bæjarins. Í dag er leikskólinn á Hellu, Heklukot, á þremur stöðum í bænum en þarft þykir að koma allri starfseminni undir eitt þak. Ætlað er að 2. áfangi stækkunar grunnskólans verði tilbúinn að ári og hugsanlegt er þá að hluti af starfsemi leikskólans fái þar inni um stundarsakir. Starf hans verði þá í tveimur húsum í stað þriggja nú, með því óhagræði sem slíku augljóslega fylgir.
„Samfélagið hér er í vexti og ungt fjölskyldufólk vill skapa sína framtíð hér. Því fjölgar börnunum í skólanum hér. Fyrir ári voru grunnskólabörn hér um 150, þau eru 178 núna og gætu orðið um 200 eftir ár. Þetta er jákvæð þróun. Í leikskólanum eru nú 85 börn og fer fjölgandi,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, í samtali við Morgunblaðið.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.