Telur heilabilað fólk á lokuðum deildum frelsissvipt án laga

Skúli Magnússon, fráfarandi umboðsmaður Alþingis.
Skúli Magnússon, fráfarandi umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Skúli Magnússon, fráfarandi umboðsmaður Alþingis, telur heilabilað fólk á lokuðum deildum frelsissvipt án laga. 

Þetta sagði Skúli í viðtali á Sprengisandi þar sem hann ræddi meðal annars ársskýrslu umboðsmanns fyrir síðasta ár. Fjallað var um hana í Morgunblaðinu í gær. 

Skúli sagði oft fábrotnar reglur gilda um stöðu fólks sem er frelsissvipt, svo sem þeirra sem dvelja á geðdeildum, börn sem dvelja í einkareknum úrræðum og fólks á lokuðum deildum á hjúkrunarheimilum. 

„Engin lagaheimild“ 

„Það má segja að sumt af þessu fari fram í hálfgerðu lagalegu tómarúmi. Ég nefni sem dæmi stöðu fólks með fólk á heilabilun á lokuðum deildum hjúkrunarheimila. Um þetta er í raun og veru engin lagaumgjörð,“ sagði Skúli. 

Hann nefndi að inn á slíkum deildum sé fólk sem sé meira eða minna lögráða sem sé lokað inni.

„Það er engin lagaheimild til þess.“

Spurður hvað það þýði svaraði Skúli að þetta sé mál sem löggjafinn þurfi að taka þá.

Hann sagði ráðuneytið þurfa að vinna faglegu vinnuna og málið eigi síðan að fara til alþingis sem taki afstöðu til þess hvernig skuli tryggja réttaröryggi þessa fólks. 

Starf unnið af fagmennsku og alúð

Skúli hélt því til haga að það starf sem er unnið á slíkum deildum er unnið af fagmennsku og alúð og í góðum tilgangi. Það sé haft samráð við ættingja og aðstandendur. 

„Ég er ekki að lýsa hér einhverju hræðilegu ástandi. En ég er hins vegar að benda á það að lagalega er þetta mál mjög ófullkomið. Og frá lagalegu sjónarhóli er þetta svona – getum við sagt – eiginlega sviðin jörð.“

Skúli telur að það þurfi að koma til einhverskonar regluverk utan um þessi tilfelli. 

Hann hef­ur verið skipaður dóm­ari við Hæsta­rétt frá og með 1. októ­ber.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka