Karin Kristjana Hindborg, eigandi snyrtivöruverslunarinnar Nola, kallar eftir auknu eftirliti á svokölluðum gráum markaði snyrtivara á Íslandi. Hún segir málið mikilvægt fyrir neytendur og hvetur innflutningsaðila til að gera betur. Að kaupa snyrtivörur af gráum markaði geti haft afleiðingar.
„Þetta er grafalvarlegt mál,“ segir Karin í samtali við mbl.is.
Margir hafa eflaust heyrt talað um svartan markað, en hann vísar meðal annars til þess þegar seldar eru vörur sem eru eftirlíking af annarri vöru. Þær geta litið alveg eins út og upprunalegar merkjavörur. En hvað er þá grár markaður?
„Grái markaðurinn er erfiður vegna þess að þá veistu ekki uppruna vörunnar. Varan gæti verið útrunnin, gömul, búin að liggja út í sól eða í frosti á vörubretti í einhverjar vikur, verið eftirlíking eða stolinn varningur. Við bara vitum ekki neitt og það er það sem gerir þetta svolítið flókið,“ segir Karin.
Mbl.is hefur fengið nokkurn fjölda ábendinga um íslensk fyrirtæki sem kaupa vörur af gráum markaði. Fyrirtækin kaupa vörunar líklega frá vöruhúsum í útlöndum. Vöruhúsin kaupa vörurnar til dæmis á uppboðum og af verslunum sem eru að losa sig við vöruna. En vörurnar geta einnig hafa verið fengnar með þjófnaði.
Það getur verið hagstæðara fyrir fyrirtæki að kaupa vörur af gráa markaðnum, þar sem verð vara kann að vera lægra en ef keypt er af viðurkenndum dreifingaraðila eða framleiðandanum sjálfum.
Eins og fyrr segir rekur Karin verslunina Nola. Hún hefur lent í því að vörusendingar hafi týnst á leiðinni til Íslands. Hún segist hafa heyrt frá fleiri íslenskum heildsölum og verslunum sem hafa lent í því sama. Grunur er um að vörusendingunum sé stolið og þær svo seldar á gráa markaðinn
„Ég hef heyrt í verslunum og heildsölum sem hafa lent í því að sendingar hafa týnst. Ég hef líka heyrt af því að kassar hafi verið opnaðir einhvers staðar á leiðinni og eru tómir við komu,“ segir Karin.
Karin segist ein hafa leyfi til að flytja inn og selja þau vörumerki sem hún selji í Nola. Þrátt fyrir það hafi hún einstaka sinnum lent í því að önnur íslensk fyrirtæki hafi selt sömu vörumerki og Nola. Karin hefur sent umræddum fyrirtækjum fyrirspurnir um hvaðan þau fái vörurnar, en henni hefur ekki verið svarað.
„Það er alveg galið að fyrirtæki, stór sem smá, geti ekki svarað fyrir það hvaðan vörurnar þeirra koma,“ segir Karin.
Spurð hvort það sé algengt að íslensk fyrirtæki stundi það að flytja inn vörur af gráum markaði segir Karin það vera að færast í aukana. „Þetta er að verða æ algengara. Fólki finnst þetta bara eitthvað svo sjálfsagt. Bara að reyna að græða og fara auðveldu leiðina,“ segir Karin.
Hver er hættan fyrir neytendur ef þeir kaupa snyrtivörur sem koma ekki frá viðurkenndum söluaðila, og þar af leiðandi koma af gráum markaði?
„Í fyrsta lagi þá er þetta neytendablekking. Það er verið að selja þér eitthvað sem er ekki það sem að þú heldur að þetta sé. Þú veist ekki upprunann, þú veist ekki hvort þetta sé alvöru eða hvort það sé yfirhöfuð í lagi með vöruna,“ segir Karin og bætir við:
„Ef þetta er ekki ekta þá veistu ekkert hvað er í þessu eða við hvaða aðstæður varan er búin til. Það gæti verið kattarhland eða málningarþynnir í vörunni, viljum við setja það á stærsta líffærið okkar, á augun og slímhúðina? Þetta gæti verið útrunnið eða gamalt. Þú gætir fengið alvarleg viðbrögð við þessu á húðinni sem þú endar svo á að þurfa borga tugi þúsunda fyrir meðferð hjá húðlækni. Þannig að maður er ekkert alltaf að spara.“
Að hennar mati er þetta mikilvægt neytendamál.
„Mér finnst að neytandinn eigi að vera upplýstur um það hvað hann er að kaupa og geta gengið inn í verslun og verið viss um að fá alvöru vöru í hendurnar frá viðurkenndum dreifingaraðila, að verslanir geti ekki bara selt eitthvað úr einhverjum gámum þar sem ekkert er vitað um upprunann. Að það sé ekki endalaust verið að blekkja okkur. Væri í lagi fyrir matvöruverslanir að kaupa mjólk og kjöt úr gámum þar sem ekkert er vitað um vöruna og svo væri það auglýst sem ferskt og íslenskt?“
Karin hefur rekið Nola í tíu ár. Hún hefur í gegnum árin vakið athygli á gráa markaðnum á Instagram-síðu Nola. Eitt sinn benti hún á að tiltekin snyrtivöruverslun á höfuðborgarsvæðinu hefði ekki leyfi frá framleiðanda til að flytja inn vöru sem hún var sjálf ein með leyfi fyrir. Í kjölfarið fékk hún handrukkara á skrifstofu sína.
„Þá var annað fyrirtæki að selja vörumerki sem ég er með í sölu sem það hafði ekki leyfi fyrir. Framleiðandinn og dreifingaraðilinn sem sér um Norðurlöndin höfðu ekki hugmynd um hvaðan þau fengu vörurnar. Ég vissi ekkert hvaðan þær vörur komu og ég benti á það. Þá bara fékk ég á mig handrukkara og allskonar fólk sem kom á þeirra vegum sem að var að njósna um mig og drulla yfir mig og gera málið persónulegt. Þetta var bara skelfilegt,“ segir Karin.
„Svo fékk ég einstaka sinnum til mín fólk sem hafði verslað hjá þeim en fannst varan vera skrítin og upplifðu kláða og roða á húðinni eða höfðu misst mikið af hárum úr augabrún og vildu reyna skipta vörunni hjá mér, en við tökum auðvitað ekki ábyrgð á vörum sem koma ekki frá okkur,“ segir Karin enn fremur.
Karin kallar eftir auknu eftirliti, sérstaklega þegar kemur að sölu snyrtivara.
„Það getur hver sem er flutt inn vöru. En hvar er eftirlitið? Snyrtivörur eru eitthvað sem við setjum á okkar stærsta líffæri. [...] Það á bara að vera eftirlit með þessu eins og með matvælum,“ segir Karin.
Sem dæmi nefnir hún að ef að neytandi kaupi maskara, sem reynist vera eftirlíking, þá gæti til dæmis verið eitthvað í honum sem veldur blindu. „Það er bara rosalega dýrkeypt,“ segir Karin.
Karin segist ekki vekja athygli á málinu til að losna við samkeppni. „Þetta snýst alls ekki um það að ég vilji ekki fá einhverja samkeppni, en samkeppni verður að vera samkeppnishæf. Ég get ekki verið að keppa við eitthvað svindl. Það bara er ekki samkeppni eða sanngjarnt.“
Þá segist hún sjálf kaupa snyrtivörur frá öðrum verslunum en hennar. Henni finnist mikilvægt að vita, sem neytanda, að vörurnar komi frá viðurkenndum söluaðila. „Mér finnst þetta ósanngjarnt gagnvart neytendum. Ég er sjálf neytandi. Ég kaupi snyrtivörur líka, ekki bara það sem ég panta inn fyrir mína verslun, heldur kaupi ég líka annað sem mig langar að prófa.“
Karin segir mikilvægt að þeir sem standi í innflutningi axli ábyrgð, einnig sé mikilvægt að neytendur axli ábyrgð á sínum neysluvenjum.
„Mér finnst að verslunareigendur, heildsölur og þeir sem eru í innflutningi á vörum verði að fara skoða sínar viðskiptaleiðir og vera heiðarleg. Að taka ábyrgð á því sem þeir eru að flytja inn. Einfalda leiðin er ekki alltaf betri.
Við sem neytendur verðum líka að taka ábyrgð. Við getum ekki bara stungið höfðinu ofan í sandinn ef okkur finnst eitthvað grunsamlegt. Við þurfum að taka ábyrgð á okkar neysluvenjum. Margir framleiðendur lista upp viðurkennda söluaðila eftir löndum, einnig er auðvelt að setja sig í samband við þau gegnum tölvupóst.“