„Það var víðáttumikil lægð um helgina stödd vestur af landinu á Grænlandshafi. Hún var að dæla að okkur hlýju og röku lofti sem varð til þess að það var mikil úrkoma sunnan- og vestanlands.“
Þetta segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is um veðrið um helgina.
Hann segir að það hafi verið gular veðurviðvaranir á spásvæði vegna úrkomu.
„Svo var líka nokkuð hvasst inn á milli þannig að það voru viðvaranir vegna hvassviðris til dæmis á Breiðafirði og líka á Norðurlandi eystra og Austurlandi í dag.“
Hann segir að með hlýja loftinu hafi orðið mikið blíðviðri á Norðurlandi og Austurlandi um helgina. Hiti hafi víða farið yfir 20 stig og náði að 25 stigum á Skjaldþingsstöðum á laugardag.
Aðspurður segist hann ekki hafa fengið veður af stórum skriðum sem féllu vegna rigninga helgarinnar.
Hvernig er útlitið fyrir þessa viku?
„Það er að draga úr krafti lægðarinnar og á morgun dregur úr vindi og úrkomu víðast hvar. Það verður einhver væta með köflum í flestum landshlutum,“ segir hann.
Á þriðjudag verði vindurinn norðvestlægri og þá kólni aðeins fyrir norðan.
„Það bætir í úrkomu þar en það léttir til sunnan heiða og svo snýst aftur í suðvestlæga átt um miðja vikuna með rigningu hérna sunnan- og vestanlands þannig það er útlit fyrir vætutíð sunnanlands í þessari viku,“ segir hann að lokum.