Íshellar geta myndast þar sem jökulvatn rennur undan jökulsporði í vatnsmiklum rásum. Á meginjöklinum hripar leysingarvatn í ótal taumum niður á botn en safnast þar í fáa farvegi.
Þetta kemur fram í svari á vef Vísindavefs Háskóla Íslands við spurningunni: Hvernig myndast íshellar?
Höfundur svarsins er Helgi Björnsson, prófessor emeritus í jöklafræði.
Hann segir í svarinu, að núningsvarmi í vatnsrásunum bræði stöðugt ísveggina og við það stækki hvelfingar. Ísfargið á þunnum sporðinum nái ekki að pressa saman göngin og þegar leysingartíma lýkur, og vatn hverfur úr göngunum, geti þau staðið opin langt fram á vetur. Þegar leysing hefst á ný að vori taki göngin aftur að vaxa.
„Jökulsporðurinn er á sífelldri hreyfingu, oft í rykkjum, einkum þegar hann rennur til á votum og sleipum botni. Þá hrynja oft ísjakar niður úr hvelfingunni. Óvænt vatnsflóð geta komið niður ísgöngin, jafnvel borist frá yfirborði jökulsins um lóðrétta svelgi. Sé farið langt inn í íshella getur verið hætta á súrefnisskorti,“ segir í svari Helga.
Hann bendir enn fremur á, að kunnustu íshellarnir séu við sporð Breiðamerkurjökuls og Kötlujökuls.
Bráðnun íss geti einnig verið vegna jarðhita undir jökli, til dæmis í Kverkfjöllum og undir hjarnbreiðum í Kerlingarfjöllum og við Hrafntinnusker.
„Um alla þessa íshella ætti að fara með ýtrustu gát og alls ekki að hætta sér inn í þá að sumarlagi,“ skrifar Helgi.
Eins og fram hefur komið þá varð banaslys á Breiðamerkurjökli fyrir rúmri viku þegar bandarískur ferðamaður varð undir ísfargi sem féll í íshelli. Greint hefur verið frá að starfshópur hafi verið skipaður af ríkisstjórninni sem mun fara yfir öryggismál í jöklaferðum og m.a. rannsaka hvað fór úrskeiðis á Breiðamerkurjökli.