Stór hluti nemenda á yngsta stigi íslenskra grunnskóla nær ekki settum viðmiðum þegar kemur að lestrarfærni.
Að loknum 1. bekk vita sumir nemendur ekki hvernig allir bókstafir stafrófsins hljóma.
Með hverjum nýjum árgangi fjölgar þessum börnum. Á sama tíma fækkar þeim stöðugt sem ná viðmiðunum.
Auður Björgvinsdóttir, læsisfræðingur og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir þörf á heildstæðu samræmdu námsmati í grunnskólum landsins.
Skólayfirvöld hafi gert „stórkostleg mistök“ með því að haga málum þannig að ekkert slíkt mat sé við lýði í dag.
Eins og áður hefur verið rakið í umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is gafst mennta- og barnamálaráðherra upp á því að leggja samræmdu könnunarprófin fyrir nemendur eftir að fyrirlagningin misfórst árin 2020 og 2021.
Ráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, lagði til árið 2022 að prófin yrðu aflögð tímabundið, „þar til ráðuneytið hefur innleitt nýtt samræmt námsmat“. Samþykkti Alþingi lagabreytingu þess efnis.
Síðan þá hefur ekkert heildstætt samræmt námsmat litið dagsins ljós, nema að litlu leyti.
Og áætlanir ráðherra um innleiðingu þess virðast taka breytingum jafnvel dag frá degi, og án nokkurra skýringa.
Lesfimipróf falla undir þann litla hluta nýja námsmatsins sem kominn er í gagnið.
Próf í lesfimi eru því þau próf sem flestir nemendur taka og um leið einu prófin sem meirihluti nemenda þreytir, eða rúmlega 90% á yngri stigum.
Hlutfallið lækkar svo eftir því sem ofar dregur.
Auður bendir á að eftir standi að það sé ekki eitt einasta próf sem grunnskólabörn séu skyldug til að taka.
„Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því,“ segir hún.
„Öll próf sem skólayfirvöld bjóða upp á eru valkvæð, þannig að hver skóli getur í rauninni bara ákveðið að einhverjir nemendur taki ekki ákveðin próf. Þannig að það er alveg klárt mál að það er hluti nemenda sem ekki er metinn. Ég er sannfærð um að oft sé það vegna þess að kennarar telja nemendur ekki ráða við matið og vilja hlífa þeim.“
Flest þeirra sem þó þreyta prófið ná heldur ekki viðmiðum þess.
Miðað er við að við lok 1. bekkjar geti helmingur nemenda lesið rétt 55 orð á mínútu. Samkvæmt gögnum menntamálayfirvalda voru það 69% barnanna sem náðu því ekki í vor.
Þetta hlutfall hækkar með hverjum nýjum árgangi sem lýkur 1. bekk grunnskóla hér á landi. Sem sagt, þeim börnum fjölgar sífellt sem ná ekki viðmiðum í læsi.
„Og það er ekkert verið að tala um þetta. Það er bara verið að tala um hvort við eigum að vera með samræmd könnunarpróf eða hvernig niðurstöðum PISA-kannanir skila,“ segir Auður og bendir á að ekki megi gleyma undirstöðuatriðum í skólagöngu barnanna.
Mikilvægar undirstöður eru lagðar á fyrstu árum barna í grunnskóla, sem reynir svo á þegar komið er að PISA-prófinu undir lok skólagöngunnar.
Undirstöður sem virðast æ veikbyggðari hér á landi, ef taka á mið af niðurstöðum PISA.
„Til að byggja upp lestrarfærni þannig að börn eigi einhvern möguleika á að geta lesið og skilið texta í 4. og 7. bekk, eða í PISA, þá þurfa þau að búa yfir vissri lesfimi. Þessi lesfimi þarf í raun að byggjast upp á fyrstu tveimur árum grunnskólans,“ segir Auður.
„Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að ef börn hafa ekki náð nægilegri færni í 3. bekk þá næst hún sjaldnast. Þá ná þau í rauninni aldrei jafnöldrum sínum og sitja einfaldlega eftir.“
Fylgjast þurfi mun betur með á meðan börnin eru enn svona ung.
„Af því að til dæmis í janúar, þegar fyrsta lesfimiprófið er yfirleitt lagt fyrir, þá er hálfur 1. bekkur liðinn. Hvernig ætlum við að bregðast við ef barn les sex orð á mínútu? Það er alveg augljóst að það vantar grunn þarna.“
Ásmundur Einar hefur sætt gagnrýni fyrir að gefast upp á samræmdu könnunarprófunum án þess að koma með nokkuð í þeirra stað.
Hefur fræðafólk við menntavísindasviðið sagt ákvörðun ráðherrans óráðlega og um leið afdrifaríka, þegar alkunna sé að íslenska skólakerfið standi höllum fæti.
Áætlanir Ásmundar Einars um nýtt námsmat, svokallaðan matsferil, hafa þótt óljósar og hefur umboðsmaður barna krafið ráðherrann um svör.
Eftir að svör loks bárust sagði umboðsmaður þau ekki slá á áhyggjur af innleiðingu nýs námsmats.
Auður bendir á að í Svíþjóð sé samræmt skyldumat í 1. bekk grunnskólanna, þar sem grunnlestrarfærni allra barna er athuguð með skipulögðum hætti.
„Samræmt mat er einfaldlega nauðsynleg forsenda þess að við getum tekið ábyrgð á útkomu kennslunnar,“ segir hún.
Hvort sem það er þá í formi matsferils eða samræmdra prófa?
„Það er bara forsenda fyrir því að við getum öll farið að ganga í takt, að við vitum að hverju á að stefna og að við vitum hvernig eigi að meta það. Það er ekki bara hægt að mæla frammistöðuna svona eða hinsegin. Á einhverjum tímapunkti þarf maður, ef maður ætlar að ganga í takt við hina, að meta útkomuna með sama hætti.“
Aðalnámskráin hefur sætt mikilli gagnrýni í gegnum árin fyrir óljós viðmið.
Það sé beinlínis lagt í hendur hvers kennara fyrir sig að meta hvenær ákveðnum viðmiðum er náð.
Aðspurð segir Auður að þetta sé raunin.
„Já, það er algjörlega þannig. Þegar þú gefur kennurum ekki skýrar leiðbeiningar, heldur segir þeim bara að þeir séu fagfólk og viti best, þá ertu ekki að gera neinum greiða,“ segir hún.
„Vegna þess að þú ert að leggja alla ábyrgðina á kennarana. Þú ert að gera þá ábyrga fyrir því að vita hvenær nemendur eru í vanda og hvenær ekki, og hvernig eigi að bregðast við. Þetta gengur í rauninni ekki upp.“
Auður, sem starfaði lengi sem grunnskólakennari, segir lítið til af skipulögðu og gagnreyndu námsefni fyrir lestrarkennslu á Íslandi.
Hún vinnur nú að doktorsverkefni sem er hluti af viðamikilli samanburðarrannsókn undir stjórn dr. Önnu-Lindar Pétursdóttur, þar sem meðal annars eru könnuð áhrif svokallaðrar félagakennslu á lestrarfærni nemenda í íslenskum grunnskólum.
Hjálpast nemendur þá meira að við lærdóminn og hljóð bókstafa eru í forgrunni, auk þess sem kallað er umskráningarfærni, en það er hæfileikinn til að breyta bókstöfum orða í viðeigandi málhljóð, tengja hljóðin saman til að mynda orð og finna svo merkingu orðsins.
„Minn hluti rannsóknarinnar snýr að börnum sem standa höllum fæti við upphaf grunnskóla og við sjáum marktækan mun í þessari rannsókn. Nemendur sem sýna vísbendingar um lestrarvanda við upphaf grunnskóla ná marktækt betri árangri á öllum breytum, þegar þeir fá svona skýra og skipulagða lestrarkennslu þar sem lögð er áhersla á markviss tengsl bókstafahljóðs og mörg tækifæri til endurtekningar,“ segir Auður.
„Samstarfskona mín Amelia Larimer er að rannsaka útkomuna fyrir börn sem hafa annað móðurmál en íslensku og það er sama sagan þar.“
En var lestrarkennslan betri hér áður fyrr? Erum við með breyttar áherslur sem hafa leitt til þess að þetta hefur farið versnandi?
„Það er mjög góð spurning. Það er erfitt að slá einhverju föstu, enda margt sem hefur áhrif og margt sem hefur breyst í samfélaginu okkar. Það virðist sem hljóðaaðferð, sem kennir tengsl stafs og hljóðs og að tengja saman einföld orð áður en farið er í flókna texta, hafi almennt verið notuð,“ segir Auður.
Bendir hún á að margir hafi lært með bókinni Gagn og gaman, en hún kom fyrst út haustið 1933.
Talið er að um 200 þúsund eintök hafi verið prentuð af fyrsta hefti bókarinnar.
„Ég hef heyrt að fyrir einhverjum áratugum hafi fólk kennt börnunum að lesa áður en þau fóru í skólann, eða sent þau til lestrarkennara. Það virðist vera þannig að heimilin hafi átt stóran þátt í lestrarkennslu hérna einu sinni og kannski erum við bara rosalega föst í því,“ bætir hún við.
„Við þurfum að horfa til svo margra þátta þegar við berum saman nútímann og það sem var. Vorum við einu sinni að spá í þá sem ekki lærðu að lesa hérna einu sinni?“
Áður voru bækur ein helsta afþreying barna. Nú eru möguleikarnir miklu fleiri og ýmiss konar myndskeið og leikir í spjaldtölvum hafa líklega í mörgum tilfellum rutt bókum úr vegi. Gætum við verið að horfa upp á afleiðingar þessarar þróunar?
„Já, eflaust. Þá var hliðarafurð afþreyingarinnar sú að hún þjálfaði þig í lestri í leiðinni. Þetta er örugglega þáttur í þessari þróun. En á sama tíma er til fjöldi rannsókna sem sýna okkur hvernig við eigum að kenna lestur rétt og við eigum alveg að geta lagað þetta.“
Auður bendir á að í umræðunni um niðurstöður PISA sé oft minnst á slæman lesskilning barnanna, ekki síst drengja. 47% fimmtán ára drengja hér á landi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi en á meðal stúlkna er hlutfallið 32%.
„En lestur á svona flóknum og fjölbreyttum textum – hann fæst aðeins eftir að þú byrjar á að ráða við mjög einfalda texta,“ segir hún.
„Og með því að passa ekki upp á það að börnin nái í raun tilskilinni lestrarfærni og þjálfun, í textum sem þyngjast og þyngjast, þá hefurðu af þeim tækifærið til að ráða við þessi verkefni.“
Er þá þarna fundinn misbresturinn, sem við sjáum svo ekki fyrr en í niðurstöðum PISA einhverjum sjö til níu árum síðar?
„Það má kannski segja það. Vegna þess að til að geta ráðið við lesskilningsverkefni verðurðu að geta lesið til að byrja með,“ svarar Auður.
„Til að geta skilið texta sem þú lest þarftu að geta lesið með sjálfvirkum hætti, það er að segja lesturinn þarf að vera frekar áreynslulaus, og þú þarft að skilja orðin og samhengi þeirra.“
Lesskilningur sé útkoma málskilnings og lestrarfærni. Báðir þættir þurfi að vera í lagi og ekki sé nóg að búa aðeins að öðrum þeirra.
„Ef við horfum til dæmis á miðstig grunnskólans, og þær samfélagsgreinabækur sem þar eru notaðar, þá leikur mér forvitni á að vita að hvaða marki börnin eru sjálf að glíma við þennan texta, eða að hvaða marki það er gert í sameiningu undir handleiðslu kennara vegna þess að þau skortir færnina til að skilja textann,“ segir Auður.
„Það má heldur ekki gleymast að þeir sem geta lesið fá tækifæri til að efla orðaforða sinn í leiðinni, orðaforði í rituðum texta er alla jafna flóknari en daglegt mál.“
Að hennar mati hefur umræðan um menntamálin í sumar oft snúist upp í hvað fólk haldi og hvað því finnist.
„En mig grunar, ef við bara skoðum gögnin og athugum til dæmis hversu hátt hlutfall nemenda á miðstigi er undir viðmiðum í lesfimi, að þá sjáum við að þeim myndi reynast erfitt að lesa sér til í bókum.“
Rannsóknin sem Auður vinnur að ásamt fleirum nær til rúmlega fimm hundruð barna.
„Það sem þessi rannsókn leiðir meðal annars í ljós er að þegar nemendur byrja í skóla í 1. bekk kunna þeir allt frá engum bókstaf og upp í það að vera farnir að lesa langt yfir viðmiðum.
Þetta er það sem kennarar fá í fangið. Það er því virkilega ósanngjarnt gagnvart þeim að segja við þá að þeir séu sérfræðingar í þessu og eigi að geta fundið út úr þessu öllu, án þess að hafa aðgang að fjölbreyttu og skipulega uppbyggðu kennsluefni sem mætir þessum fjölbreyttu þörfum,“ segir Auður.
„Þess utan hafa ekki allir kennarar sem kenna 1. bekk sérhæft sig í kennslu ungra barna og vita jafnvel ekki mikið um lestrarkennslu. Þannig var staða mín þegar ég byrjaði að kenna fyrir um tuttugu árum.“
Þessar slæmu niðurstöður um læsi barna fást úr eina samræmda matstækinu sem til er. Má þá ekki segja að ráðherra hafi gert mistök þegar hann afnam samræmd próf með öllu, án þess að nokkuð kæmi í þeirra stað?
„Ég veit ekki endilega hvar mistökin voru gerð nákvæmlega. Ég held að í það minnsta þurfi að skoða stjórnsýsluna heilt yfir, af því að prófin sem slík gera bara visst gagn. Spurningin er heldur: Hvernig erum við að nota niðurstöðurnar og hvaða tilgangi þjóna þær?“ segir Auður.
„Ég veit ekki hvort það hafi endilega verið mistök að afnema einmitt þessi próf. En ég held að það séu aftur á móti alveg stórkostleg mistök að vera ekki með neitt samræmt mat.“
Rifjað er upp það sem getið var í samtali blaðamanns við formann Kennarasambandsins í byrjun ágúst, að Veðurstofan hefði fyrir nokkrum árum þurft að flytja mælistöðina fyrir utan byggingu sína við Bústaðaveg.
Nýjum mæli var þá komið fyrir en þeim gamla haldið á sama stað í nokkur ár, til að vísindamenn gætu komið auga á mun þeirra á milli og fyrir vikið samræmt áframhaldandi mælingar.
Samfelldra og samræmdra mælinga er þannig gætt í veðri, en ekki þegar kemur að lærdómi barnanna sem byggja eiga landið.
„Algjörlega. Ég undirstrika það að ef við höfum ekki einhvers konar viðmið í gildi, og leiðir til þess að meta hæfni með sanngjörnum hætti, heldur verjum orku okkar í að rífast um hvort PISA-niðurstöðurnar séu áreiðanlegar eða ekki, þá erum við bara að bregðast börnunum.“
„Það mikilvægasta í öllu námsmati er að sjá hvort börn ráða við – eða hvort þau hafi í rauninni lært það sem var kennt. Hefur nám átt sér stað? Og ef ekki, hvað eigum við þá að gera?“
Auður telur að andstaðan við gömlu samræmdu lokaprófin, sem voru afnumin árið 2009, hafi meðal annars verið vegna þess að ekki þótti gott að raða börnum og skólum eftir getu á opinberan hátt.
„Það er ekki hjálplegt. En á sama tíma er ekki hjálplegt að taka í burtu samræmda matið þannig að við vitum ekki lengur hvar börnin standa. Þá erum við bara að stinga höfðinu í sandinn.“
Ekki hjálpi heldur til títtnefndar klisjur á borð við að enginn sé góður í öllu og að allir séu góðir í einhverju.
„Það er bara ekki nóg. Við þurfum alltaf vissa grunnfærni.“
Það er þörf á samræmdu mati í skólunum.
„Já, til þess að geta borið – og mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram – til þess að við getum borið ábyrgð á vinnunni okkar sem kennarar,“ segir Auður.
„Ef við skoðum ekki útkomuna af kennslunni okkar strax frá byrjun, þá erum við í rauninni að firra okkur ábyrgð á námi barnanna. Kennarar geta ekki breytt þessu einir. Þeir þurfa stuðning og aðhald stjórnvalda.“