Fimmfalda aðgengi fyrir fólk í alvarlegri ópíóíðaneyslu

Við undirritun SÁÁ og Sjúkratrygginga í dag.
Við undirritun SÁÁ og Sjúkratrygginga í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðherra undirritaði í dag samning á milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ sem mun fimmfalda aðgengi að þjónustu við einstaklinga með alvarlega ópíóíðafíkn.

Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir, forstjóri SÁÁ, segir samninginn muni gjörbreyta og bæta þjónustuna.

Hún segir undirritun samningsins breyta miklu til hins betra fyrir fólk í fíkniefnavanda. Með þessu séu heilbrigðisyfirvöld og SÁÁ að taka höndum saman gegn ópíóíðavandanum sem hafi látið meira á sér bera á undanförnum þremur árum.

Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úr 90 upp í 450 skjólstæðinga

„Samningurinn sem var í gildi var fyrir 90 [einstaklinga] og mismuninn brúaði SÁÁ. En núna er hann með rými fyrir 450 einstaklinga sem geta verið í þjónustu hjá okkur á hverjum tíma. Þannig það er fimmföldun á rými samningsins,“ segir Ragnheiður. 

Að auki verði komið á verklagi þar sem aðrar heilbrigðisstofnanir geti sent flýtitilvísun til SÁÁ sem sé skoðuð innan sólarhrings.

„Það er hugsað fyrir þá sem leita þjónustu í öðrum heilbrigðisþjónustum og eru í miklum vanda og eru kannski í þessum svokallaða meðferðarglugga.“

Þar sé átt við einstaklinga sem upplifi einhvers konar skyndilegar breytingar á sínu ástandi til hins verra eða séu í alvarlegri ópíóíðaneyslu.

Betri meðferðarúrræði

„Þá getum við gripið þá mjög fljótt bæði með innlögn en líka með því að veita þeim strax aðgengi að þessari lyfjameðferð á göngudeild,“ segir Ragnheiður.

Segir Ragnheiður meðferðarúrræði við ópíóíðafíkn sömuleiðis orðin betri þar sem fólk geti nú fengið mánaðarlega forðasprautu. Það skipti sköpum að fólk þurfi einungis að koma einu sinni í mánuði og sé þar með varið út mánuðinn.

„Í staðinn fyrir að þurfa að koma á tveggja vikna fresti og sækja töflur, sem það þá getur tekið eða ekki tekið.“

Horfur séu því batnandi í baráttunni við ópíóíðavandann en að sögn Ragnheiðar veitir samningurinn SÁÁ betri tækifæri til að grípa þá einstaklinga sem þurfi á meðferð að halda strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert