Greiði milljónir í yfirvinnu vegna aksturs kennara

mbl.is/Ernir

Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur dæmt sveitarfélagið Skagafjörð til að greiða tónlistarkennara 2,2 milljónir kr. í yfirvinnu fyrir tíma sem hann þurfti að aka á milli starfsstöðva tónlistarskóla.

Ágreiningur málsins snérist um það hvort kennarinn ætti rétt á launum vegna þess tíma sem fór í aksturinn eða hvort sá tími rúmaðist innan árlegrar vinnuskyldu hans.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 28. maí en var birtur 30. ágúst, að kennarinn, sem er kona, höfðaði málið gegn sveitarfélaginu og fór fram á að sveitarfélagið greiddi henni 2,4 milljónir kr. vegna akstursins.

Ók á milli nokkurra starfsstöðva

Fram kemur í dómnum að konan hafi starfað við Tónlistarskóla Skagafjarðar um árabil og ekið á milli starfsstöðva skólans sem eru á Sauðárkróki, Varmahlíð, Hofsósi og að Hólum í Hjaltadal. Tekið er fram að konan hafi sinnt kennslu á öllum starfsstöðvunum að Varmahlíð undanskilinni. Á ferðum sínum milli starfsstöðva skólans notaði hún bifreið í eigu sveitarfélagsins. 

Sveitarfélagið hélt því fram fyrir dómi að það væri ósannað að konan hefði í raun unnið fullan vinnutíma og að aksturstíminn hefði verið umfram vinnuskyldu hennar. 

Konan hélt því aftur á móti fram að hún hefði uppfyllt vinnuskylduna og aksturstíminn væri umfram vinnuskyldu.

Aksturstíminn full viðbót við fulla vinnuskyldu

„Það er niðurstaða dómsins að stefnandi hafi fært fram nægjanlega sönnu þess efnis að hún hafi skilað þeim vinnustundum sem honum bar á hverju ári en akstur milli starfsstöðva hafi verið þar fyrir utan. Fyrirmæli starfsmanna stefnda til skólastjóra í þá veru að skólastjóra bæri að skipuleggja starf skólans með þeim hætti að akstur rúmaðist innan árlegrar vinnuskyldu breyta engu þar um. Hafi skólastjórinn ekki farið eftir fyrirmælum yfirmanna sinna, og þau yfir höfuð framkvæmanleg innan þess sem fram kemur í kjarasamningi, er ekki við stefnanda að sakast í þeim efnum. Þá er til þess að líta að skólastjórinn bar að ekki væri unnt að koma akstri fyrir innan 1.800 tíma vinnuskyldu nema taka annað út í staðinn eða minnka kennsluskyldu og því hafi aksturstíminn verið  viðbót við fulla vinnuskyldu stefnanda,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Þar segir segir jafnframt að konan hafi haldið því fram að hún hefði samviskusamlega skráð aksturinn í akstursbók sem væri í vörslum sveitarfélagsins. Skráningin hefði verið byggð á skóladagatölum hvers árs. Taldi héraðsdómur að hún hefði fært fram næga sönnun fyrir þeim tíma sem hefði farið í akstur á milli starfsstöðva.

Málið á sér langan aðdraganda

Þá kemur fram í dómnum, að það sé óumdeilt að samstarfsmaður konunnar hafi um árabil haft uppi athugasemdir við sveitarfélagið og fyrirrennara hans vegna samskonar kröfu. Hann leitaði til stéttarfélags síns vegna þessa eigi síðar en á árinu 2018. Þá var ágreiningurinn ítrekað ræddur á fundum samráðsnefndar án þess að niðurstaða hefði fengist í málið sem aðilar féllust á.

„Stefnandi höfðaði mál hér fyrir dómi 30. maí 2020 sem vísað var frá dómi og í framhaldi af því höfðaði hún mál þetta. Í raun var það samkennari stefnanda sem hafði forustu í ágreiningi vegna greiðslu fyrir akstur en stefnandi og annar samkennari til fylgdu honum án þess þó að þeirra mál væru sérstaklega rædd á samráðsfundum en stefnandi er í sambærilegri stöðu og samkennarinn hvað þetta varðar. Ekki eru efni til að ætla að stefnda hafi ekki mátt vera ljóst að sú var staðan. Þá má ráða að á einhverjum tíma hafi stefnandi leitast við að koma á móts við kröfur kennara við skólann með því að lækka starfshlutfall þeirra. Þá hafi stefndi einnig um tíma greitt kennurum úr svokölluðum launapotti til að vega upp á móti tíma sem fór í akstur en það fyrirkomulag var, að sögn skólastjóra, aflagt vegna andstöðu stefnda.

Stefnandi hefur því í langan tíma reynt að fá kröfu sína viðurkennda af stefnda en án árangurs og hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að stefndi hafi mátt ætla að stefnandi hafi sætt sig við afstöðu stefnda til kröfunnar.

Að mati dómsins hefur stefnandi ekki sýnt af sér slíkt tómlæti að krafa hennar sé af þeim sökum niður fallin. Ekki eru efni til annars en að fallast á með stefnanda að stefnda beri að greiða henni samkvæmt yfirvinnutaxta enda allur tíminn sem fór í akstur umfram vinnuskyldu,“ segir í niðurstöðu dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert