Hnífaburður ungmenna sé samfélagslegt vandamál

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að ekki hafi verið beitt sektum um hnífaburð nægilega markvisst og að hækka þyrfti sektirnar. Þá segir hún að þróunin á hnífaburði ungmenna sé svipuð í  í nágrannalöndunum.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í Silfrinu á RÚV í kvöld þar sem Sigríður var mætt til þess að ræða hnífaburð ungs fólks en mikið hefur verið rætt um málefnið í kjölfar stunguárásar á menningarnótt þar sem ung stúlka lét lífið.

Efst á baugi á Norðurlöndunum

„Við byrjuðum að taka eftir þessu fyrir ekki mjög löngu síðan. Þetta hefur verið að aukast mjög hratt. Ekki bara hjá okkur heldur líka á hinum Norðurlöndunum. Hinir ríkislögreglustjórarnir voru hérna í heimsókn hjá okkur í síðustu viku og þessi mál eru efst á baugi hjá öllum og það hefur verið að bæta í síðustu tvö ár og núna höfum við verið að sjá þessa þróun fara versnandi,“ segir Sigríður um hnífaburð ungmenna.

Í viðtalinu segir Sigríður lögreglu ekki vera með svörin á bakvið aukinn hnífaburð ungmenna en nefnir að svo virðist sem um sé að ræða samverkandi þætti.

„Krakkar sem að upplifa sig í erfiðri stöðu og þurfa að verja hendur sínar, áhrif samfélagsmiðla. Ég held að allir séu nú sammála um það hafi áhrif. Síðan virðist þetta komast í einhverja tísku,“ segir Sigríður og bætir við að um sé að ræða menningar- og samfélagslegt vandamál, ekki einungis vandamál lögreglu og kerfisins.

Spurð um hvað hún telji vera leiðina til að sporna við vandamálinu segir Sigríður að greiningardeild ríkislögreglustjóra hafi birt skýrslu í sumar þar sem greint var hver helsti vandi væri hjá börnunum. Þá hafi einnig barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra unnið að aðgerðaráætlun sem kominn sé vel af stað.

Mikil afturför þegar lögregla hætti forvarnarstarfi

„Hins vegar er alveg ljóst að við þurfum að gera betur og við þurfum að taka fastar á þessu máli. Það er hægt að gera það með mýkri hætti en líka með því að taka fastar á málum,“ segir ríkislögreglustjórinn.

Varðandi mýkri þáttinn nefnir Sigríður að það hafi verið mikil afturför þegar lögregla hætti forvarnarstarfi. Sé nú aftur byrjað í afbrotavörnum til þess að mynda tengingu á milli lögreglu og barna. Segir hún að tilraunir séu hafnar til að mynda jákvæða tengingu á milli lögreglu og barna séu nú þegar hafnar m.a. með því að spila tölvuleiki með krökkum og fara í félagsmiðstöðvar.

Hækkun sektarviðmiða í skoðun hjá ríkissaksóknara

Nefnir hún þá einnig að lögregla þurfi sýnilegri á þeim stöðum sem að brotin eru að gerast og að lögregla þurfi að fara að sekta sakhæfa einstaklinga sem gerist sekir um hnífaburð.

„Við höfum kannski ekki beitt því nægilega markvisst.“

Spurð um hvort henni finnist refsiramminn fyrir hnífaburð vera í lagi segir hún að sektarviðmiðin þurfi að vera hækkuð.

„Þetta er í skoðun hjá ríkissaksóknara. Þetta er dálítið breiður rammi og það þyrfti að okkar mati að hækka sektirnar og taka á því. Fólk þarf aðeins að finna fyrir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert