Karl Sigurðsson látinn, 106 ára

Karl Sigurðsson á Ísafirði er látinn, 106 ára að aldri. …
Karl Sigurðsson á Ísafirði er látinn, 106 ára að aldri. Myndin var tekin 14. maí síðastliðinn þegar hann varð 106. Aðeins einn annar karlmaður íslenskur náði jafn háum aldri. Ljósmynd/Karl K. Ásgeirsson

Karl Sigurðsson, sem var elstur karla hér á landi, lést á Ísafirði í gær, 106 ára að aldri. Afkomendur hans nálgast hundraðið, orðnir 96 að tölu.

Karl fæddist 14. maí árið 1918 í húsinu Rómaborg á Ísafirði og var skírður 1. desember sama ár, á þeim merkisdegi þegar Ísland varð fullvalda ríki. Á sínu fyrsta ári fluttist hann með fjölskyldu sinni í Hnífsdal og bjó þar stærstan hluta ævinnar.

Foreldrar Karls voru Sigurður Jónasson, ættaður úr Dalasýslu, sem náði 99 ára aldri, og Sigríður Ingibjörg Salómonsdóttir sem ættuð var úr Álftafirði við Djúp. Systkini Karls voru 13 talsins.

Karl fór snemma á sjóinn og var skipstjóri í ein 30 ár þar til hann kom í land og starfaði sem vélstjóri í frystihúsi allt til 78 ára aldurs. Síðustu tvö ár var Karl á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði en áður var hann í íbúð á Hlíf.

Karl var meðal stofnenda Slysavarnadeildarinnar Tinda í Hnífsdal og þegar deildin fagnaði 90 ára afmæli sl. vor komu félagar í Tindi færandi hendi til Karls á hjúkrunarheimilið með blómvönd.

Fleiri góðir gestir heimsóttu Karl á heimilið, m.a. forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, er þau voru í opinberri heimsókn á Ísafirði. 

Eiginkona Karls var Kristjana Hjartardóttir. Hún varð 95 ára en þau voru í hjónabandi í rúm 70 ár. Börnin voru sex og eru tvö þeirra á lífi, Sigríður Ingibjörg og Halldóra. Afkomendurnir eru orðnir 96 talsins. 

Karl Sigurðsson á heimili sínu árið 2018.
Karl Sigurðsson á heimili sínu árið 2018. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
Forsetahjónin Guðni og Eliza í heimsókn hjá Karli árið 2022.
Forsetahjónin Guðni og Eliza í heimsókn hjá Karli árið 2022. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert