„Góður framhaldsskóli þarf að hafa fjölbreytt námsframboð fyrir ólíka hópa nemenda. Einnig að geta boðið þeim sem þess þurfa stuðning og aðstoð, hvort heldur er persónulega eða í námi þar sem gerðar eru akademískar kröfur um góðan árangur,“ segir Soffía Sveinsdóttir, nýr skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.
Hún var skipuð í embættið snemma sumars og kom þann 1. ágúst til starfa við skólann þar sem hún var sjálf á unglingsárum og lauk þaðan stúdentsprófi.
„Hér lærði ég á sínum tíma margt hjá góðum kennurum í skóla sem ég hef æ síðan borið sterkar taugar til. Frá því ég brautskráðist héðan eru liðin 26 ár og margt hér hefur haldið sér síðan þá. Margt annað hefur þó breyst, enda er eðli skólastarfs að vera í sífelldri þróun í samræmi við síbreytilegt samfélag,“ segir Soffía sem á fjölbreyttan feril að baki.
„Það togaði alltaf í mig að starfa í skólakerfinu og vera þá helst í stjórnunarhlutverki, eins og ég hafði með höndum í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Flutt aftur í gamla heimabæinn minn ákvað ég því að minnsta kosti að senda inn umsókn þegar embætti skólameistara var auglýst og ég svo heppin að fá,“ segir Soffía.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.