Rafmagnsleysi gerði Mýrdælingum skráveifu

Bifreiðar á vegum Rarik á vettvangi bilunarinnar í Mýrdal í …
Bifreiðar á vegum Rarik á vettvangi bilunarinnar í Mýrdal í dag. Rafmagns- og símasambandslaust varð á stóru svæði. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

„Ekkert kom upp á í fyrirtækinu hjá okkur sem ég hef heyrt af nema að við aflýstum sýningum vegna þeirra upplýsinga sem við fengum,“ segir Maksymilian Kaczmarek, deildarstjóri bræðsludeildar Lava Show í Vík í Mýrdal, fyrirtækis sem sýnir gestum sínum hvernig íslensk eldgos fara fram.

Símasambands- og rafmagnslaust varð í Mýrdal í nótt og stóð fram yfir hádegi vegna alvarlegrar bilunar þegar strengur Rarik slitnaði og voru íbúar Víkur án rafmagns klukkustundum saman. Fjöldi ferðamanna var á svæðinu en þeir sækja meðal annars í Reynisfjöru vegna þeirra sérstöku náttúrulegu aðstæðna sem þar má berja augum. Hafa banaslys reglulega orðið í fjörunni og því öryggisatriði að þaðan sé hægt að hringja.

Rarik bað íbúa í Mýrdal að spara við sig rafmagn …
Rarik bað íbúa í Mýrdal að spara við sig rafmagn í dag þar sem svæðið væri keyrt á varaafli meðan á viðgerð stóð. Hér er verið að flytja vararafstöð til bæjarins á meðan skórinn kreppir. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Töldu rafmagnsleysið algjört

Segir Maks, eins og hann er kallaður í daglegu tali, misskilning hafa komið upp milli fyrirtækisins og Rarik. „Við skildum þetta þannig að um algjört rafmagnsleysi yrði að ræða, við fengum ekki að vita að vararafall í Vík stæði til boða,“ segir Maks sem hefur ekki heyrt af öðrum skakkaföllum hjá Lava Show en þeim að aflýsa hafi þurft sýningum, en hann var ekki á staðnum þegar mbl.is náði tali af honum.

Greindi Rarik frá biluninni með tveimur færslum á heimasíðu sinni, þeirri fyrri í nótt en hinni síðari upp úr hádegi í dag. Komu þær upplýsingar fram í síðari færslunni að rafmagn væri komið á í Mýrdal og Vík en viðskiptavinir væru beðnir að fara sparlega með rafmagn þar sem svæðið væri enn keyrt á varaafli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert