Lögreglan á Selfossi er með til rannsóknar slagsmál sem áttu sér stað við Ölfusárbrú á Selfossi í gærkvöld.
Þorsteinn Kristinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar, segir í samtali við mbl.is að hópur manna hafi ráðist á ungan mann og segir Þorsteinn að fórnarlambið hafi þurft að leita á sjúkrastofnun.
„Rannsóknin er á algjöru frumstigi. Við erum að leita sönnunargagna og fara yfir upptökur sem mögulega eru til,“ segir Þorsteinn við mbl.is.
Á íbúasíðunni Íbúar á Selfossi segir:
„Fyrr í kvöld voru ljót slagsmál við/undir Ölfusárbrú, Tryggvaskálamegin. Ef þú átt strák u.þ.b. 15-18 ára með áverka eftir kvöldið væri ráð að spjalla við hann og reyna að fá frekari upplýsingar. Þetta voru 4-5 strákar á móti einum. Nokkrir áhorfendur til hliðar. Greinilega skipulagt því gerendur og áhorfendur földu andlit sín með grímum og hettum. Þetta voru grimm slagsmál en leystust upp þegar vitni reyndu að stoppa þá. Lögreglan var kölluð til og kom rétt eftir að þeir hlupu í burtu. Veit ekki hvort þeir náðu í skottið á einhverjum þeirra.“