Franskur lífeyrisþegi fór fyrir rétt í morgun sakaður um að hafa leyft tugum ókunnugra manna að nauðga eiginkonu sinni eftir að hann byrlaði henni ólyfjan.
Málið hefur að vonum vakið mikinn óhug í Frakklandi.
Fimmtíu menn fara einnig fyrir rétt í borginni Avignon í suðurhluta Frakklands. Þar verður aðalsakborningurinn 71 árs fyrrverandi starfsmaður franska orkufyrirtækisins EDF.
Lögreglan taldi til alls 92 nauðganir sem framdar voru af 72 mönnum og hafa kennsl verið borin á 51 þeirra.
Mennirnir, á aldrinum 26 til 74 ára, eru sakaðir um að hafa nauðgað hinni 72 ára konu sem, að sögn lögfræðinga hennar, hafði verið byrlað svo miklu magni af lyfjum að hún vissi ekki af misnotkuninni, sem hafði átt sér stað í áratug.
Dómarinn Roger Arata sagði að réttarhöldin yrðu haldin fyrir opnum tjöldum. Að sögn eins lögmanna konunnar, Stephane Bobonneau, óskaði hún eftir því.
Annar lögmaður hennar, Antoine Camus, sagði að réttarhöldin yrðu engu að síður „hræðileg þolraun“ fyrir skjólstæðing sinn.
„Í fyrsta sinn verður hún að fara í gegnum nauðganirnar sem hún varð fyrir á tíu ára tímabili,“ sagði hann og bætti við að hún „myndi ekkert“ eftir misnotkuninni, sem hún uppgötvaði ekki fyrr en árið 2020.
Konan mætti í réttarsalinn í morgun ásamt þremur börnum sínum.
Hún vildi ekki að málið færi fram fyrir luktum dyrum vegna þess að „árásarmenn hennar hefðu viljað það“, sagði Camus.
Rannsókn málsins hófst í september 2020 eftir að öryggisvörður stóð sakborninginn Dominique P að því að mynda í laumi undir pils þriggja kvenna í verslunarmiðstöð.
Í tölvu hans fundust mörg hundruð ljósmyndir og myndbönd af eiginkonu hans, greinilega meðvitundarlausri og oftast í fósturstellingu.
Myndirnar eru sagðar sýna tugi nauðgana á heimili hjónanna í Mazan þar sem um sex þúsund manns búa.