Samfélög sem ala á ótta þurfa upprisu

Guðrún Karls Helgudóttir.
Guðrún Karls Helgudóttir. mbl.is/Ólafur Árdal

Upprisan var áberandi stef í ræðu sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur sem vígð var til embættis biskups Íslands í Hallgrímskirkju í gær. Fráfarandi biskup vígði Guðrúnu í embættið, við athöfn þar sem fjöldi kennimanna víða að var samankominn.

„Kirkjan þarf reglulega að taka í hönd Krists og leyfa honum að reisa sig við til þess að vera sú kirkja sem hann ætlar henni að vera,“ sagði Guðrún í vígsluræðu sinni. „Samfélög sem ala á ótta og ráðast á saklaust fólk þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem markvisst mismuna fólki á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynþáttar, trúar eða nokkurs annars þurfa á upprisu að halda. Samfélög sem eru að reyna að gera sitt besta þurfa reglulega á upprisu að halda.“

Góðverk eiga að vera unnin í auðmýkt og kyrrþey, segir biskupinn nýi. Starfið í þjóðkirkjunni sé því eitt best geymda leyndarmálið á Íslandi. „Við höfum ekki viljað vera að trana okkur fram heldur vinna verkin í hljóði. Og þegar við verðum fyrir aðkasti erum við áfram prúð og stillt, vinnum okkar verk og leiðréttum ekki misskilninginn,“ segir Guðrún.

„Við erum ekki að berja okkur persónulega á brjóst og gera okkur breið. Við megum vera stolt af kirkjunni okkar og við eigum að vera stolt af verki Guðs. Því þá erum við stolt af því að fá að þjóna Guði í kærleika og leggja örlítið af mörkum til þess að gera heiminn betri,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir biskup yfir Íslandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert