Þurfti að leita aðhlynningar eftir árásina

Horft yfir Selfoss.
Horft yfir Selfoss. mbl.is/Sigurður Bogi

Þorsteinn Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að rannsókn á slagsmálum ungmenna við Ölfusárbrú á Selfossi í gærkvöldi sé í fullum gangi en talið er að hópur manna hafi ráðist að einum.

Íbúi á Selfossi greindi frá því í færslu á íbúðasíðunni Íbúar á Selfossi að fjórir til fimm grímuklæddir hefðu ráðist að einum og árásin verið greinilega skipulögð því gerendur og áhorfendur hefðu falið andlit sín með grímum og hettum.

Ekki grunur um beitingu vopna

Þorsteinn segir í samtali við mbl.is að lögreglunni hafi ekki tekist að hafa upp á árásarmönnunum en fórnarlambið, ungur maður, þurfti að leita á sjúkrastofnun eftir árásina. Hann segist ekki vita um áverka unga mannsins.

„Við erum með ákveðið myndskeið af atvikinu í höndunum sem við erum að skoða og erum að afla okkur frekari gagna um málið sem við lítum mjög alvarlegum augum,“ segir Þorsteinn.

Beittu þessir árásarmenn einhverjum vopnum?

„Það er ekki grunur um það en ég get ekki fullyrt neitt um það fyrr en það er búið að ná utan um málið. Rannsóknin er í fullum gangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert