Trausti kolfellir sumarið 2024

Trausti Jónsson naut vinsælda þegar hann flutti landanum veðurfréttir á …
Trausti Jónsson naut vinsælda þegar hann flutti landanum veðurfréttir á skjánum og ekki hafa þær minnkað yfir Hungurdiskum sem margir lesa sér til ánægju og yndisauka enda eiga Íslendingar sér ekkert umræðuefni kærara en rammíslenskt veður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Trausti Jónsson veðurfræðingur, ritstjóri veðurvéfréttarinnar Hungurdiska, ríður ekki við einteyming enda ekki á færi nema spökustu veðurskrifara að gefa íslenskum sumrum einkunnir á borð við þær sem misbaldnir skólapiltar hljóta að vori – á hinum efsta degi.

„Ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað „einkunn“ sumarsins 2024 í Reykjavík og á Akureyri,“ skrifar Trausti á Hungurdiska, nafn síðunnar raunar dregið af kostulegu hugtaki séra Matthíasar Jochumssonar í kvæðinu Hafísnum þar sem kerling Helja sat í stafni, „hungurdiskum hendandi yfir gráð“. Huggulegt.

En veðurfræðingurinn skýrir aðferðafræði sína við sumareinkunn.

„Aðferðin hefur verið skýrð áður (og er auðvitað umdeilanleg). Sumarið nær hér til mánaðanna júní til ágúst – aðferðin gæti gengið fyrir maí líka en varla september. Hæsta mögulega einkunn í þessu kerfi er talan 48 – ekkert sumar hefur náð slíkum hæðum – hvorki í Reykjavík né á Akureyri, litlu munaði þó á Akureyri 2021, þegar einkunn sumarsins þar var 47,“ skrifar Trausti.

Einkunnin fyrir 2024 er 14

Þetta eru rausnarlegar einkunnir, 47 og 48 í það minnsta, jafnvel þótt litið sé til gamla einkunnakerfisins áður en einn til tíu varð alfa og ómega.

Trausti gefur nýliðnu sumri einkunnina 14. „Það er 10 stigum undir meðallagi. Súlurnar á myndinni sýna einkunn hvers árs. Við sjáum að aðeins tvö önnur sumur síðustu 25 ára fá lægri einkunn heldur en þetta, það voru 2018 (13 stig) og 2013 (12 stig). Munurinn auðvitað ekki marktækur. Sex stig fengust í júní í ár, sömuleiðis í ágúst, en aðeins tvö í júlí. Sumarið 2018 (sem fékk álíka lága einkunn) var öðruvísi að því leyti að þá fékk júní núll stig, júlí tvö (eins og nú), en ágúst hins vegar 11 stig (bjargaði því sem bjargað varð). Árið 2013 dreifðust stigin milli mánaðanna – lítill munur var á þeim.“

Trausti heldur áfram og ræðir skiptingu tímabila í veðrinu.

„Það vekur alltaf athygli á sumareinkunnarmyndinni í Reykjavík hversu tímabilaskipting er mikil. Tíuárameðaltal fór lægst niður í 15 stig á árunum 1975 til 1984, en hæst í 32 stig, á árunum 2003 til 2012 – árin 2009 til 2012 skera sig sérstaklega úr fyrir gæði – og 2019 síðan í sama flokki. Þrátt fyrir lakleg sumur í ár og 2018 má segja að sumur hafi síðasta áratug verið alveg á pari við það sem best gerðist áður en kuldaskeiðið alræmda skall á af fullum þunga á sjöunda áratug 20. aldar,“ úrskurðar hann.

Lokadómurinn felldur

Trausti klykkir að lokum út með samanburði sumra á Suður- og Norðurlandi, þekktu bitbeini og stundum öfundunarefni. Lýkur greiningu hans með svofelldum orðum:

„Það er nákvæmlega ekkert samband á milli sumareinkunnar nyrðra og syðra. Þó eru fleiri sumur góð á báðum stöðum (samtímis) heldur en vond á báðum. Frábærlega góð á báðum stöðum voru 1931, 1939, 1957, 2004, 2007, 2008 og 2012, en 1959, 1969, 1992 og sumarið í ár voru slök á báðum stöðum – 1983 var ekki sérlega gott á Akureyri heldur – á mörkum hins slaka.

Munum að lokum að þetta er bara ábyrgðarlaus leikur – ekki má nota þessar niðurstöður í neinni alvöru. Svo er september eftir – hann telst formlega til sumarsins í árstíðaskiptingu Veðurstofunnar.“

Þar höfum við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert