„Vona að ég sé ekki að garga út í tómið“

Viktor Pétur Finnsson, formaður SUS.
Viktor Pétur Finnsson, formaður SUS. Ljósmynd/Aðsend

Skiptar skoðanir virðast vera meðal ungra sjálfstæðismanna um flokksráðsfundinn sem fram fór um helgina. Á meðan einn stjórnarmaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) telur ritskoðun ríkja innan flokksins vonar formaður samtakanna að flokkurinn sé nú að spyrna sér „frá botninum“.

Sambandið hefur verið áberandi í umræðunni í kringum flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins sem fram fór á laugardaginn en það keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu á laugardaginn þar sem sagði „13,9% Hvað er planið?“ og var þar vísað í sögulega lágt fylgi flokksins í skoðanakönnunum. Auglýsingin birtist sömuleiðis á skiltum í kringum Valhöll á meðan flokksráðsfundurinn stóð yfir.

Í samtali við mbl.is á laugardaginn sagði Júlí­us Viggó Ólafs­son, formaður Heimdall­ar – fé­lags ungra sjálf­stæðismanna í Reykja­vík, aðspurður um ástæðu auglýsinganna að um væri að ræða mjög einlæga spurningu.

Hins vegar er óhætt er að segja að fæstir myndu ráðast í opinbera auglýsingaherferð sem þessa með tilheyrandi kostnaði ef aðeins forvitni réði för.

Um ögrun að ræða?

Spurður hvort um hafi verið að ræða ögrun gagnvart forystu Sjálfstæðisflokksins segir Viktor: 

„Ég held að við séum að senda skilaboð hvoru tveggja til kjörinni fulltrúa og þeirra sem lesa Morgunblaðið og þeirra sem keyrðu þarna framhjá að að innan flokksins sé allavega einhver vitundarvakning um að flokkurinn sé ekki að fylgja stefnunni með nægilegum hætti.

Við erum ekki að lækka skatta nóg, við erum ekki að vera nógu hægrisinnuð.“

Vonast eftir aðgerðum

Spurður hvort að ungir sjálfstæðismenn hafi fengið svar við því hvað planið sé á flokksráðsfundinum segir Viktor að þeir hafi séð að allavega sé enginn að leggja árar í bát og að fólk í flokknum sé tilbúið að koma saman.

„Svarið er kannski kannski ekki auðvelt, það er margt sem þarf að gera og ekki eitthvað eitt svar en ég er spenntur að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér og hvernig forystan og kjörnir fulltrúar bregðast við þessum skilaboðum okkar og ég vona að við förum að sjá aðgerðir,“ segir Viktor og bætir við:

„Staðan er alvarleg en eftir svona fjölmennan fund þar sem maður finnur fyrir mannauðnum í flokknum hef ég fulla trú á því að við séum að spyrna okkur af botninum hvað fylgi í könnunum varðar.“

Ritskoðun í flokknum

Ekki virðast allir meðlimir í SUS þó standa á þeirri skoðun að það horfi til betri vegar eftir fundinn en stjórnarmaður í samtökunum skoðanagrein á Vísi í dag þar sem hann sakaði forystu flokksins um ritskoðun og sagði að þaggað hefði verið niður í umræðu um bága stöðu hans í skoðanakönnunum á flokksráðsfundinum.

Spurður út í efni greinarinnar segir Viktor að óboðlegt sé að ritskoða útgefið efni SUS: 

„Það er eðlilegt að í fjölmennum samböndum eins og SUS sé fólk með ólíkar skoðanir á flokknum og ég tel það af hinu góða svo lengi sem við fylkjum okkur bakvið stefnu flokksins. Það er óboðlegt ef það á að fara ritskoða útgefið efni SUS þó skoðanagreinin sé auðvitað skrifuð af stjórnarmanninum sjálfum en ekki fyrir hönd SUS,“ segir Viktor og ítrekar að SUS sé sjálfstætt félag innan flokksins þar sem stjórnarmenn megi tjá sig um það sem þeir vilja. Allri umræðu um flokkinn sé fagnað. 

Vinnan mætti vera skýrari

Fannst þér almennilega umræða um stöðu flokksins eiga sér stað á fundinum?

„Í einhverjum mæli en ég tel að við þurfum enn að fara í frekari naflaskoðun um hvað það er sem þarf að gera. Vonandi fer núna af stað einhver vinna sem mér finnst reyndar að mætti vera með aðeins skýrari hætti.“

Hafiði trú á að ykkar raddir fái að heyrast í þeirri vinnu?

„Já, ég hef nú alltaf trú á Sjálfstæðisflokknum [...] Ég verð að hafa trú á því að okkar rödd fái að heyrast og þau taki mark á okkur. Ég vil allavega vona að ég sé ekki að garga út í tómið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert