40 prósent ná ekki grunnviðmiðinu í 6. bekk

6. bekkingar standa hvað verst þegar kemur að lestrarfærni.
6. bekkingar standa hvað verst þegar kemur að lestrarfærni. mbl.is/Hari

40 prósent nemenda í 6. bekk ná ekki grunnviðmiði þegar kemur að lestrarfærni. Viðmiðið er hannað með það í huga að 90 prósent nemenda eigi að ná því.

Hlutfall þeirra nemenda sem náðu grunnviðmiðinu, þegar síðasta lesfimipróf var lagt fyrir í vor, var lægst í 6. bekk af öllum árgöngum.

Þó var það litlu skárra í 5. og 7. bekk.

Einu prófin sem meirihluti barna þreytir

Nemendum sem ná grunnviðmiði fækkar frá síðasta ári í öllum árgöngum, samkvæmt upplýsingum úr skólagátt menntamálayfirvalda. Munurinn er þó ekki marktækur.

Lesfimi er samkvæmt skilgreiningu samsett færni sem felst í leshraða, lestrarnákvæmni, áherslum og hrynjanda í lestri.

Viðmiðin eru eins konar vörður sem eiga að sýna stíganda í lesfimi frá einum bekk til annars, en prófin eru þau einu sem meirihluti grunnskólanema þreytir og gefa einhverja mynd af því hvar nemendur eru staddir námslega. 

Enginn árgangur náði 90% hlutfallinu

Þegar Menntamálastofnun, nú Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu, setti síðast fram ný viðmið í lesfimi árið 2016 var stefnt að því að 90 prósent nemenda næðu grunnviðmiði í lestri, eða viðmiði 1, eins og það er kallað.

Enginn árgangur náði því hlutfalli síðastliðið vor. Hlutfallið var hæst í 1. bekk, eða 84,9 prósent.

Þá er markmiðið að 50 prósent nemenda nái svokölluðu viðmiði 2, en síðastliðið vor náðu aðeins 22,7 prósent nemenda í 6. bekk því viðmiði.

Hlutfall þeirra sem náðu viðmiði 2 var þó lægst í 8. bekk, eða 21,6 prósent.

Hlutfall nemenda sem ná viðmiði lesfimiprófa lækkar á milli ára.
Hlutfall nemenda sem ná viðmiði lesfimiprófa lækkar á milli ára. mbl.is/Hari

37,5% með næga getu fyrir bóknámsbrautir

Þegar ný viðmið voru sett fram náðu einungis 64 prósent nemenda í 10. bekk viðmiði 1 við útskrift, 29 prósent viðmiði 2 og 8 prósent viðmiði 3.

Voru þá uppi væntingar um töluverðar framfarir í lesfimi.

Staða nemenda í lesfimi við lok 10. bekkjar hefur vissulega eitthvað skánað, en í vor náðu þó aðeins 65 prósent nemenda viðmiði 1 við útskrift og 37,5 prósent nemenda viðmiði 2 sem miðast við 180 orð á mínútu.

Það er sá fjöldi orða sem talið er að nemendur á bóknámsbrautum framhaldsskóla þurfi að geta lesið til að komast yfir það námsefni sem ætlast er til af þeim.

Byggja þurfi upp færni í 1. og 2. bekk

Í ítarlegri umfjöllun í Morgunblaðinu í gær sagði Auður Björg­vins­dótt­ir, læsis­fræðing­ur og aðjúnkt við menntavís­inda­svið Há­skóla Íslands, að þörf væri á heild­stæðu sam­ræmdu náms­mati í grunn­skól­um lands­ins.

Skóla­yf­ir­völd hefðu gert „stór­kost­leg mis­tök“ með því að haga mál­um þannig að ekk­ert slíkt mat væri við lýði í dag.

Auður sagði jafnframt að til að byggja upp lestrarfærni, þannig að börn eigi einhvern möguleika á að geta lesið og skilið texta í 4. og 7. bekk, þegar PISA-könnunin er lögð fyrir, þá þurfi þau að búa yfir vissri lesfimi sem verði að byggja upp á fyrstu tveimur árum grunnskólans.

Erlendar rannsóknir hafi sýnt fram á að hafi börn ekki náð nægilegri færni í 3. bekk þá nái þau sjaldnast jafnöldrum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert