40 prósent nemenda í 6. bekk ná ekki grunnviðmiði þegar kemur að lestrarfærni. Viðmiðið er hannað með það í huga að 90 prósent nemenda eigi að ná því.
Hlutfall þeirra nemenda sem náðu grunnviðmiðinu, þegar síðasta lesfimipróf var lagt fyrir í vor, var lægst í 6. bekk af öllum árgöngum.
Þó var það litlu skárra í 5. og 7. bekk.
Nemendum sem ná grunnviðmiði fækkar frá síðasta ári í öllum árgöngum, samkvæmt upplýsingum úr skólagátt menntamálayfirvalda. Munurinn er þó ekki marktækur.
Lesfimi er samkvæmt skilgreiningu samsett færni sem felst í leshraða, lestrarnákvæmni, áherslum og hrynjanda í lestri.
Viðmiðin eru eins konar vörður sem eiga að sýna stíganda í lesfimi frá einum bekk til annars, en prófin eru þau einu sem meirihluti grunnskólanema þreytir og gefa einhverja mynd af því hvar nemendur eru staddir námslega.
Þegar Menntamálastofnun, nú Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu, setti síðast fram ný viðmið í lesfimi árið 2016 var stefnt að því að 90 prósent nemenda næðu grunnviðmiði í lestri, eða viðmiði 1, eins og það er kallað.
Enginn árgangur náði því hlutfalli síðastliðið vor. Hlutfallið var hæst í 1. bekk, eða 84,9 prósent.
Þá er markmiðið að 50 prósent nemenda nái svokölluðu viðmiði 2, en síðastliðið vor náðu aðeins 22,7 prósent nemenda í 6. bekk því viðmiði.
Hlutfall þeirra sem náðu viðmiði 2 var þó lægst í 8. bekk, eða 21,6 prósent.
Þegar ný viðmið voru sett fram náðu einungis 64 prósent nemenda í 10. bekk viðmiði 1 við útskrift, 29 prósent viðmiði 2 og 8 prósent viðmiði 3.
Voru þá uppi væntingar um töluverðar framfarir í lesfimi.
Staða nemenda í lesfimi við lok 10. bekkjar hefur vissulega eitthvað skánað, en í vor náðu þó aðeins 65 prósent nemenda viðmiði 1 við útskrift og 37,5 prósent nemenda viðmiði 2 sem miðast við 180 orð á mínútu.
Það er sá fjöldi orða sem talið er að nemendur á bóknámsbrautum framhaldsskóla þurfi að geta lesið til að komast yfir það námsefni sem ætlast er til af þeim.
Í ítarlegri umfjöllun í Morgunblaðinu í gær sagði Auður Björgvinsdóttir, læsisfræðingur og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands, að þörf væri á heildstæðu samræmdu námsmati í grunnskólum landsins.
Skólayfirvöld hefðu gert „stórkostleg mistök“ með því að haga málum þannig að ekkert slíkt mat væri við lýði í dag.
Auður sagði jafnframt að til að byggja upp lestrarfærni, þannig að börn eigi einhvern möguleika á að geta lesið og skilið texta í 4. og 7. bekk, þegar PISA-könnunin er lögð fyrir, þá þurfi þau að búa yfir vissri lesfimi sem verði að byggja upp á fyrstu tveimur árum grunnskólans.
Erlendar rannsóknir hafi sýnt fram á að hafi börn ekki náð nægilegri færni í 3. bekk þá nái þau sjaldnast jafnöldrum sínum.