44 milljónir rúmmetra af kviku á þriggja km dýpi

Horft úr norðri yfir Víti og Öskjuvatn í leiðangri Veðurstofu …
Horft úr norðri yfir Víti og Öskjuvatn í leiðangri Veðurstofu þann 10. ágúst. Ljósmynd/Michelle M. Parks/Veðurstofa Íslands

Gervitunglagögn og hallamælingar staðfesta að land heldur áfram að rísa í eldstöðinni Öskju. Hefur það risið um tólf sentimetra á undanförnum tólf mánuðum. Líklega er tvöfalt meiri kvika þar undir en safnast hafði fyrir áður en gaus við Svartsengi í ágúst.

Þetta er niðurstaða árlegrar vettvangsferðar Veðurstofu sem farin var að Öskju í ágúst, og greint er frá í tilkynningu. Gerðar voru landmælingar, hita- og sýrustigsmælingar í Víti og margþættar gasmælingar á gufuhverasvæðinu í Vítisgíg.

Niðurstöður líkanreikninga Veðurstofunnar benda til þess að staðsetning og dýpi kvikusöfnunarsvæðisins sé svipað og áður hafði verið áætlað.

Engin merki um að kvika færist ofar

Talið er að kvika flæði á um þriggja kílómetra dýpi, en engin merki eru um að hún færist nær yfirborði.

Samkvæmt útreikningum hafa 4,4 milljónir rúmmetrar af kviku bæst við síðustu tólf mánuði. Er því áætlað að heildarrúmmálsbreyting frá því landris hófst sé um 44 milljónir rúmmetra.

Til samanburðar er talið að um 17-27 milljónir rúmmetra af kviku hafi hlaupið úr kvikuhólfinu eftir að gjósa tók á Sundhnúkagígaröðinni í ágúst.

Hægja tók á landrisinu í september á síðasta ári, eins og Morgunblaðið greindi frá.

Vöktun aukin verulega

Tekið er fram í tilkynningu Veðurstofu að áfram verði fylgst náið með þróuninni í Öskju. Eftir að landris hófst og þenslu varð vart við Öskju sumarið 2021 hafi vöktun verið aukin verulega.

Fyrstu aflögunarmælingarnar í Öskju voru hallamælingar sem hófust árið 1966 og á milli áranna 1970 og 1972 mældist landris. Eftir nokkurra ára hlé á mælingum vegna Kröfluelda var farið að hallamæla aftur og þá var land farið að síga og hélt sú þróun áfram þar til 2021 þegar landris fór aftur að mælast.

Áður hefur því mælst landris án þess að til eldgoss komi. Segir Veðurstofan að á þessu stigi sé því erfitt að meta hver þróun mála verður í Öskju.

Líkast til eldgos eins og á 20. öld

Loks er rifjað upp að síðast hafi gosið í Öskju árið 1961 þegar Vikrahraun myndaðist í basísku hraungosi en slík eldgos eru algengustu gos eldstöðvarinnar. Svipuð gos áttu sér stað í byrjun 20. aldar.

„Aðdragandi eldgossins árið 1961 var greinilegur en 20 dögum fyrir upphaf þess mældist aukin skjálftavirkni og veruleg aukning varð í jarðhitavirkni. Á tímabilinu 6.-12. október 1961 mældust sex skjálftar um 3 að stærð, þar af einn um 4 að stærð og kraftmiklir jarðhitahverir mynduðust á svæðum þar sem engin virkni hafði verið áður,“ segir í tilkynningu Veðurstofu.

„Um fjögur súr sprengigos eru þekkt á nútíma (síðustu 11 þúsund ár), það yngsta átti sér stað árið 1875. Aðdragandi þess goss hófst að minnsta kosti í febrúar 1874 með aukinni jarðhitavirkni, og sterkir og tíðir jarðskjálftar (skráðir á Norðurlandi) hófust vikum fyrir gosið. Árið 1875 gaus líka basískum hraungosum á sprungusveimi Öskju, Sveinagjárgosin, þar sem m.a. Nýjahraun myndaðist.

Í ljósi sögunnar þar sem langt líður milli súrra sprengigosa í Öskju er ekki talið líklegt að atburðarás svipuð þeirri sem átti sér stað í lok 19. aldar hefjist á næstu misserum. Öllu líklegra er að afleiðingar áframhaldandi virkni verði eldgos sambærileg þeim sem hafa orðið á 20. öld, þ.e. tiltölulega lítil hraungos með minni háttar gjóskufalli. Ef gosupptök verða ofan í Öskjuvatni má þó búast við sprengigosi á meðan kvikan er að einangra sig frá vatninu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka