Benedikt leiðir starfshóp en Lilja kynnir annan til

Frá aðgerðum á Breiðamerkurjökli þegar slysið átti sér stað.
Frá aðgerðum á Breiðamerkurjökli þegar slysið átti sér stað. Ljósmynd/Landsbjörg

Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri úr forsætisráðuneytinu, leiðir starfshóp fjögurra ráðuneyta í kjölfar slyss á Breiðamerkurjökli þar sem bandarískur maður lést og kona slasaðist.

Samhliða kynnti Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra, fyrir ríkisstjórninni í dag áform um að skipa starfshóp sem hefur það hlutverk að fara heildstætt yfir öryggismál ferðamanna þar sem leyfisveitingar verða til sérstakrar skoðunar. 

Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu.
Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Ljósmynd/Aðsend

Kallar eftir úttekt 

Starfshópnum sem Benedikt fer fyrir er ætlað að fara í saumana á slysinu og kanna hvort þörf sé til úrbóta í regluverkinu. Starfshópurinn samanstendur af fulltrúum fjögurra ráðuneyta.

„Starfshópurinn hefur kallað eftir úttektum frá Ferðamálastofu og Vatnajökulsþjóðgarði og mun fara nánar yfir málið með hagaðilum þegar þær úttektir liggja fyrir sem við væntum að verði á næstu dögum. Niðurstöður verða að því loknu lagðar fyrir ríkisstjórn,“ segir Benedikt. 

Auk forsætisráðuneytisins, eru það dómsmálaráðuneyti, menningar- og viðskiptamálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti sem eiga fulltrúa í starfshópnum. 

Öryggi ferðamanna í brennidepli 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, lagði í dag fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi þar sem hún kynnti að til standi að setja fót starfshóp um öryggismál í ferðaþjónustu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta og menningarráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta og menningarráðherra. mbl.is/María Matthíasdóttir

Ferðamálastofa mun fara með formennsku í hópnum. 

„Starfshópnum er m.a. falið að skoða með heildstæðum hætti regluverk er snýr að öryggi ferðamanna og eftirliti með því, upplýsingagjöf til ferðamanna, skráningu slysa, áhættumat á áfangastöðum og fyrir tilteknar tegundir afþreyingar, fjarskiptasamband um landið og viðbragðstíma viðbragðsaðila,“ segir í minnisblaði sem kynnt var fyrir ríkisstjórninni,“ segir í minnisblaði

Kröfur til leyfisveitinga til sérstakrar skoðunar

„Þá segir að kröfur og leyfisveitingar til ferðaþjónustuaðila sem starfa innan þjóðgarða skulu einnig teknar til sérstakrar skoðunar af starfhópnum, út frá öryggi ferðamanna í skipulögðum ferðum, sem og eftirlit með slíkri starfsemi innan þjóðgarða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert