Boða tillögu um endurskoðun vaxtarmarka

Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, boðaði í dag að borgarfulltrúar flokksins muni að nýju leggja fram tillögu um að vaxtarmörk húsnæðisuppbyggingar höfuðborgarsvæðisins verði endurskoðuð. Kemur þetta fram í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Segir í tilkynningunni að fram komi í gögnum Samgöngusáttmálans að gert er ráð fyrir að mannfjöldi á höfuðborgarsvæðinu aukist að meðaltali um 1.8% á ári næstu 16 árin. Það þýðir að íbúar höfuðborgarsvæðisins verði 325.284 árið 2040.

Meirihluti vinni gegn því að boðið verði upp á meira lóðaframboð

„Morgunblaðið opinberaði um helgina ágreining á milli Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar annarsvegar og Reykjavíkurborgar hinsvegar um vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins. Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík, undir forystu Framsóknarflokksins, vinnur, að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, gegn því að boðið verði upp á meira lóðaframboð og að framboð á húsnæði verði aukið,“ segir í tilkynningunni.

Segir þar ennfremur að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi þann 13. febrúar síðastliðinn lagt til að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og skipulagsráði að hefja vinnu við endurskoðun aðalskipulags með hliðsjón af aukinni eldvirkni í námunda við höfuðborgarsvæðið.

„Endurskoðuð verði vaxtarmörk borgarinnar með það fyrir augum að útvíkka afmörkun þéttbýlis innan Reykjavíkur. Jafnframt verði skilgreining aðalskipulags á uppbyggingarreitum fyrir nýja íbúðabyggð endurskoðuð, meðal annars svo unnt verði að auka íbúðamagn á Kjalarnesi og tryggja möguleika á nýrri byggð á svæðum aðliggjandi Sundabraut.“

Sáu í upphafi árs að forsendur væru brostnar

Kemur þá fram að meirihluti borgarstjórnar samþykkti að vísa tillögum Sjálfstæðismanna til starfshóps um húsnæðisátak, með þeim fyrirvara að ekki standi til að útvíkka vaxtarmörk og enn sem komið er hefur starfshópur meirihlutans um húsnæðisátak eingöngu lagt til þéttingaráform í Grafarvogi sem hafa mætt andstöðu íbúa.

„Við sáum það í upphafi árs að forsendur aðalskipulags Reykjavíkur og Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins eru brostnar. Endurskoðaður Samgöngusáttmáli undirstrikar það. Það má ekki aðeins gera ráð fyrir ríflega 10 þúsund fleiri íbúum heldur er líka ljóst að ekki verður byggt í Vatnsmýrinni næstu 16 árin. Þar var gert ráð fyrir að minnsta kosti 10 þúsund íbúum til viðbótar. Það blasir við að húsnæðisáætlanir borgarstjórnarmeirihlutans eru brostnar og munu áfram ýta upp vöxtum og verðbólgu,“ segir Friðjón R Friðjónsson, borgarfulltrúi í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert