Einari Þorsteinssyni borgarstjóra varð heitt í hamsi á borgarstjórnarfundi í dag þar sem uppfærður Samgöngusáttmáli var til umræðu.
Var borgarstjórinn ósáttur við málflutning Sjálfstæðismanna sem gagnrýndu harðlega uppfærða sáttmálann.
Fundurinn hófst á því að Einar kynnti nýja Samgöngusáttmálann. Fór hann meðal annars yfir helstu verkefni hans, hvað hefði breyst frá því að sáttmálinn var undirritaður árið 2019 og skiptingu fjármögnunar.
Marta Guðjónsdóttir og Kjartan Magnússon voru á meðal þeirra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem tóku til máls.
Marta sakaði Einar meðal annars um að hafa ekki haft hagsmuni Reykvíkinga að leiðarljósi þegar ákveðið var að seinka framkvæmdum við mislæg gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.
Þá sagði Kjartan að Einar væri nýbyrjaður í pólitík og að mikilvægt væri að hafa forsöguna í huga þegar skoða ætti uppfærðan Samgöngusáttmála. Sagði Kjartan réttnefni sáttmálans vera „Seinkunarsáttmálann“.
Borgarstjórinn virtist gefa lítið fyrir gagnrýni Sjálfstæðismanna og tók sterklega til orða.
„Ég er bara alltaf jafn einhvern veginn undrandi á ræðu Sjálfstæðismanna um Samgöngusáttmálann af því að þeir tala fyrir þeim lausnum sem verið er að bera á borð en geta einhvern veginn pólitískt ekki stutt það,“ sagði Einar og hélt áfram:
„Ég sko – tala um Tafasáttmála, Gullvagninn, Tafavagninn. Af hverju er ekki hægt bara að horfa á þetta málefnalega og segja „Við erum bara að ná ansi góðum árangri með það hvernig við ætlum að byggja upp samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.“
Þá vék borgarstjórinn máli sínu að flokksfélögum Hildar, Mörtu og Kjartans í bæjarstjórnum annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
„Félagar ykkar í Sjálfstæðisflokknum hérna hinum megin við lækinn bara styðja þetta, skilja þetta og hafa unnið að þessu með okkur. Á síðasta borgarstjórnarfundi þar sem þessi mál voru rædd var talað um það að það væri algjörlega önnur samgöngustefna í Reykjavík en í hinum sveitarfélögunum. Það er bara rangt og það er komið í ljós. Það er undirritun á þessu plaggi.“
Hann sagði það rétt að Framsóknarflokkurinn hefði verið drifkrafturinn á bak við Samgöngusáttmálann árið 2019 og alla tíð síðan.
„[O]g það er bara vegna þess að við horfum á gögnin. Fólki fjölgar. Bílum fjölgar. Það er ákall eftir betri almenningssamgöngum. Það er ákall eftir hjóla- og göngustígum. Það er ákall eftir stofnvegaframkvæmdum.
Það er það sem við erum að samþykkja og það er ótrúlegt að hlusta á þessar ræður þar sem er vaðið samhengislaust í einhverja sagnfræði og gagnrýni á það að þetta gangi ekki nógu hratt. Það var beðið um endurskoðun og fá betri áætlanir, fá betri fjárhagsgreiningar og þetta var allt saman gert. Jú það er talið raunhæfara að ná þessu fram að árinu 2040. Það er planið,“ sagði borgarstjórinn.
„Ég skil ekki hvað – út á hvað gengur ræðan. Hvað eiga borgarbúar sem eru að hlusta – eruð þið með eða á móti,“ sagði Einar að lokum áður en hann fékk sér sæti.