Ekki að heyra þetta í fyrsta sinn

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nei, ég hef ekki hugleitt það,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra spurð að því hvort hún sé að hugsa um þann möguleika á að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokkunum á landsfundinum sem haldinn verður í febrúar fari svo að Bjarni Benediktsson ákveði að stíga til hliðar.

„Ég er bara að vinna vinnuna mína sem dómsmálaráðherra og það er mikið að gera á mínu heimili. Ég er því ekki að velta þessu fyrir mér en ég væri að ljúga ef ég segði að ég væri að heyra þetta í fyrsta sinn,“ sagði Guðrún þegar hún ræddi við blaðamann eftir fund ríkistjórnarinnar í morgun.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ekki gefið upp hvort hann hyggist gefa kost sér áfram í formannsembættið á landsfundinum en hann hefur verið formaður flokksins frá árinu 2009.

Guðrún segist styðja sinn formann í hans störfum.

„Það er búið að segja það í mörg ár að hann sé að hætta en sem betur fer er fullt af fólki í Sjálfstæðisflokknum og það er ekki ég eða einhver annar sem tekur ákvörðun hver verður formaður. Það eru flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum sem velja sér nýja forystu þegar að þar að kemur.“

Ef það verður gert tilkall til þín. Ert þú þá tilbúin að taka við formennsku?

„Ég bara veit það ekki. Ég er núna að leysa úr málum vararíkissaksóknara, að tryggja að það sé allsherjarregla í samfélaginu, að samfélagið sé öruggt og gott og að börnunum okkar líði vel. Ég er því alveg róleg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert