Enginn ráðherra útilokar formannsframboð

Bjarni hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort að hann …
Bjarni hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort að hann bjóði sig fram aftur á landsfundi flokksins í febrúar. Samsett mynd/Eyþór/Eggert/Sigurður

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kippir sér lítið upp við það að aðrir ráðherrar tjái sig um mögulegt formannsframboð.

Í ljósi sögulega lágs fylgi Sjálfstæðisflokksins í könnunum og óljós áform Bjarna um hvað hann gerir á næsta landsfundi hafa umræður um mögulegan arftaka hans aukist.

mbl.is hefur spurt alla ráðherra Sjálfstæðisflokksins hvort að þeir hafi hug á því að leiða flokkinn og enginn útilokar neitt.

Þórdís tilbúin að leiða flokkinn

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hleypti formannsumræðunni hressilega af stað á Sprengisandi á sunnudag er hún sagðist aðspurð vonast til þess að hún myndi leiða flokkinn í næstu kosningum.

Í Morgunblaðinu í gær áréttaði hún þó að hún myndi aldrei fara fram gegn Bjarna á landsfundi, en landsfundur er á dagskrá í febrúar.

„Þegar spurt er „ertu til­bú­in að leiða Sjálf­stæðis­flokk­inn?“ er svarið við því já, en það eru enn þá nokkr­ir mánuðir í næsta lands­fund eins og formaður­inn fór yfir í sinni ræðu þannig að það er ekki tíma­bært að út­lista það nán­ar fyrr en það skýrist,“ sagði Þór­dís í samtali við Morgunblaðinu.

Ráðherrar einfaldlega að bregðast við spurningum

Spurður út í þessi ummæli hennar, sem og annarra sem hafa verið spurðir um mögulegt framboð, segir Bjarni:

„Ég heyrði ráðherrann segja að hún myndi ekki fara í framboð gegn formanninum, eigum við ekki að skoða þetta í þessu samhengi? Þarna eru ráðherrar einfaldlega að bregðast við spurningum um þetta efni og ég ætla ekki að setja þeim mikið fyrir í þeim efnum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Guðlaugur styður formanninn

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sagði í samtali við mbl.is að nú sé ekki staður og stund til að vera með yfirlýsingar, enda sex mánuðir í landsfund.

„Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fékk á síðasta landsfundi en eins og ég sagði eftir þann fund, þá styðjum við formanninn og ég geri það,“ sagði hann.

Guðlaugur bauð sig fram gegn Bjarna á síðasta landsfundi og hlaut 40,4 prósent atkvæða.

Áslaug ekki tekið ákvörðun um framboð

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, háskóla-,iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, sagði í samtali við mbl.is að hún hefði ekki tekið neina ákvörðun um það hvort hún ætli að bjóða sig fram til for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins á næsta lands­fundi flokks­ins fari svo að Bjarni sæk­ist ekki eft­ir end­ur­kjöri.

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um slíkt. Við erum með formann sem hef­ur ekki gefið út að hann sé á för­um og það er langt í næsta lands­fund. Ég hef metnað fyr­ir Sjálf­stæðis­flokkn­um eins og aðrir í for­ystu hans.“

Guðrún ekki hugleitt framboð

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is að hún hefði ekki hugleitt formannsframboð, en hún væri þó að ljúga ef hún segði að þetta væri í fyrsta sinn sem hún væri spurð um mögulegt framboð.

Hún sagðist styðja við Bjarna í sínum störfum sem formaður.

„Það er búið að segja það í mörg ár að hann sé að hætta en sem bet­ur fer er fullt af fólki í Sjálf­stæðis­flokkn­um og það er ekki ég eða ein­hver ann­ar sem tek­ur ákvörðun hver verður formaður. Það eru flokks­menn í Sjálf­stæðis­flokkn­um sem velja sér nýja for­ystu þegar að þar að kem­ur.“

Ásdís ekki að hugsa um framboð

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, sagði í síðasta þætti Spursmála hún væri ekki að hugsa um for­manns­fram­boð í Sjálf­stæðis­flokkn­um, að minnsta kosti ekki „eins og sak­ir standa.“

Aðrir hafa verið nefndir í þessu samhengi eins og til dæmis Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fyrr­um fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins og for­stjóri Heima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert