Fresta tónlistarhátíð vegna viðkvæmrar stöðu samfélagsins

Árbær.
Árbær. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Tónlistarhátíðinni Stíflunni, sem fara átti fram næstkomandi laugardag í Árbænum, hefur verið frestað vegna tilmæla lögreglu og viðkvæmrar stöðu í samfélaginu. Guðfinna Birta Valgeirsdóttir, sem situr í stjórn félagsins Tónhyls sem stendur að baki hátíðarinnar, segir ákvörðunina snúa að samfélagslegri ábyrgð.

Í samtali við mbl.is segir Guðfinna að Tónhylur hafi í dag átt gott samtal við lögreglu þar sem óskað var eftir að tónleikunum yrði frestað vegna andrúmsloftsins sem myndast hefur í kjölfar umræða um hnífaburð ungmenna sem hefur verið áberandi í samfélaginu undanfarið.

Segir hún að þeim sem standa að baki hátíðarinnar hafi fundist það vera skylda að sýna samstöðu á mjög undarlegum tímum.

„Við tókum ákvörðun í sameiningu að eiga þetta inni og bíða með þetta,“ segir Guðfinna.

„Þetta snýr að samfélagslegri ábyrgð af okkar hálfu. Þetta eru tónleikar þar sem mikið af þessum aldurshópi er að koma saman,“ bætir hún við.

Verður vonandi haldin síðar í ár

Stíflan var síðast haldin árið 2022 og segir Guðfinna að hátíðin hafi þá slegið í gegn. Ekki hafi náðst að halda hana í fyrra og því hafi verið talað um endurvakningu Stíflunnar í ár.

Guðfinna segir að hátíðin verði vonandi haldin seinna í ár eða á betri tíma. Nefnir hún að um sé að ræða hverfistónleika sem haldnir í Árbænum fyrir aftan Árbæjalaugina.

Um Tónhyl segir hún að um sé að ræða óhagnaðardrifin samtök sem staðsett séu í Árbænum og er tónlistarklasi sem eflir unga lagahöfunda og tónlistarfólk til að búa til tónlist.

Guðfinna Birta Valgeirsdóttir, meðstjórnandi Tónhyls sem stendur að baki Stíflunnar.
Guðfinna Birta Valgeirsdóttir, meðstjórnandi Tónhyls sem stendur að baki Stíflunnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert