Grunnskólarnir byrjaðir en ekkert bólar á aðgerðum

Ásmundur Einar Daðason kvaðst ætla að kynna aðgerðaáætlun í sumar …
Ásmundur Einar Daðason kvaðst ætla að kynna aðgerðaáætlun í sumar og gaf þriggja daga fyrirvara. Enn hefur hún þó ekki litið dagsins ljós, enda reyndist ráðherrann hafa frestað kynningunni. Samsett mynd

Mennta- og barnamálaráðherra hefur enn ekki kynnt aðgerðaáætlun til að bregðast við niðurstöðum PISA-könnunarinnar, níu mánuðum eftir að þær voru birtar.

Ísland lækkaði mest allra OECD-ríkja í PISA-könnuninni. Sýndu niðurstöðurnar meðal annars að 40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi.

Ef horft er á heildarniðurstöður könnunarinnar sést að Ísland er í sjötta neðsta sæti allra OECD-ríkjanna og næstneðst Evrópuríkja.

Búast við verri árangri

Næsta PISA-könnun verður lögð fyrir í haust. Þeir sérfræðingar sem Morgunblaðið og mbl.is hafa rætt við búast við enn verri niðurstöðum en síðast. Að líkindum mun þó líða ár á milli þess sem nemendur taka prófið og þar til niðurstöður úr því berast.

Regluleg lesfimipróf sýna fram á sífellt versnandi lestrarfærni barna eins og Morgunblaðið greindi frá í gær.

Fyrirlagning samræmdu könnunarprófanna misfórst árin 2020 og 2021. Ráðherra ákvað að afnema prófin í kjölfarið. Lesfimiprófin eru því eina samræmda matstækið sem mælir færni meirihluta íslenskra barna.

Mikilvægt að umræðan haldi áfram

Í tilkynningu ráðuneytisins þar sem greint var frá niðurstöðum PISA í desember sagði eftirfarandi:

„Ljóst er af niðurstöðum PISA 2022 að stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir og samtök þurfa að leggjast á eitt við að skilja ástæður þeirrar neikvæðu þróunar í lesskilningi og læsi sem kemur fram í könnuninni og bregðast við.“

Í samtali við mbl.is í sama mánuði sagði ráðherrann Ásmundur Einar Daðason að samfélagið þyrfti að passa sig á því að umræðan um menntamálin færi ekki aðeins hátt í desember heldur þyrfti menntakerfið að vera til umræðu allt árið um kring.

„[V]egna þess að mennta­mál­in skipta okk­ur gríðarlega miklu máli,“ sagði Ásmundur Einar.

Rúm tvö ár eru liðin frá því ráðherrann lofaði að …
Rúm tvö ár eru liðin frá því ráðherrann lofaði að skila lögbundinni skýrslu fyrir lok árs 2022. Nú segist hann munu leggja hana fram í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kynningu frestað fram á haust

Nú, níu mánuðum eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir, hafa stjórnvöld enn ekki kynnt neinar sérstakar aðgerðir til að bregðast við niðurstöðunum, eins og heitið var að gera í sumar.

Í tilkynningu 18. júní var fullyrt að ráðuneytið ynni að aðgerðaáætlun til að bregðast við niðurstöðunum í samstarfi við breiðan hóp hagsmunaaðila.

Tekið var fram að áætlunin yrði kynnt til samráðs þremur dögum síðar, föstudaginn 21. júní.

Hrinda átti svo aðgerðunum í framkvæmd við innleiðingu svokallaðs 2. áfanga menntastefnu til ársins 2030, sem fullyrt var að kynna ætti í haust.

Föstudagurinn 21. júní leið án þess að nokkuð heyrðist frá ráðuneytinu. Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is í júlí kvaðst ráðherra loks hafa frestað kynningu aðgerðaáætlunarinnar fram á haust.

Ótækt að ráðherra sinni ekki lögbundnum skyldum

Ásmundur Einar hefur einnig haldið því fram að hann muni leggja fram skýrslu á haustþingi um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum árin 2017 til 2021, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins í ágúst.

Rúm tvö ár eru liðin frá því hann lofaði að skila skýrslunni fyrir árslok 2022. Lögum samkvæmt hefði ráðherra átt að leggja skýrsluna fram í byrjun þess sama árs.

Umboðsmaður barna hefur sagt það ótækt að ráðherra standi ekki skil á lög­bundn­um skyld­um sín­um með þessum hætti. Svör ráðherrans, sem bárust í ágúst á síðasta degi fjögurra vikna svarfrests, slógu ekki á áhyggjur umboðsmanns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert