Mennta- og barnamálaráðherra hefur enn ekki kynnt aðgerðaáætlun til að bregðast við niðurstöðum PISA-könnunarinnar, níu mánuðum eftir að þær voru birtar.
Ísland lækkaði mest allra OECD-ríkja í PISA-könnuninni. Sýndu niðurstöðurnar meðal annars að 40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi.
Ef horft er á heildarniðurstöður könnunarinnar sést að Ísland er í sjötta neðsta sæti allra OECD-ríkjanna og næstneðst Evrópuríkja.
Næsta PISA-könnun verður lögð fyrir í haust. Þeir sérfræðingar sem Morgunblaðið og mbl.is hafa rætt við búast við enn verri niðurstöðum en síðast. Að líkindum mun þó líða ár á milli þess sem nemendur taka prófið og þar til niðurstöður úr því berast.
Regluleg lesfimipróf sýna fram á sífellt versnandi lestrarfærni barna eins og Morgunblaðið greindi frá í gær.
Fyrirlagning samræmdu könnunarprófanna misfórst árin 2020 og 2021. Ráðherra ákvað að afnema prófin í kjölfarið. Lesfimiprófin eru því eina samræmda matstækið sem mælir færni meirihluta íslenskra barna.
Í tilkynningu ráðuneytisins þar sem greint var frá niðurstöðum PISA í desember sagði eftirfarandi:
„Ljóst er af niðurstöðum PISA 2022 að stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir og samtök þurfa að leggjast á eitt við að skilja ástæður þeirrar neikvæðu þróunar í lesskilningi og læsi sem kemur fram í könnuninni og bregðast við.“
Í samtali við mbl.is í sama mánuði sagði ráðherrann Ásmundur Einar Daðason að samfélagið þyrfti að passa sig á því að umræðan um menntamálin færi ekki aðeins hátt í desember heldur þyrfti menntakerfið að vera til umræðu allt árið um kring.
„[V]egna þess að menntamálin skipta okkur gríðarlega miklu máli,“ sagði Ásmundur Einar.
Nú, níu mánuðum eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir, hafa stjórnvöld enn ekki kynnt neinar sérstakar aðgerðir til að bregðast við niðurstöðunum, eins og heitið var að gera í sumar.
Í tilkynningu 18. júní var fullyrt að ráðuneytið ynni að aðgerðaáætlun til að bregðast við niðurstöðunum í samstarfi við breiðan hóp hagsmunaaðila.
Tekið var fram að áætlunin yrði kynnt til samráðs þremur dögum síðar, föstudaginn 21. júní.
Hrinda átti svo aðgerðunum í framkvæmd við innleiðingu svokallaðs 2. áfanga menntastefnu til ársins 2030, sem fullyrt var að kynna ætti í haust.
Föstudagurinn 21. júní leið án þess að nokkuð heyrðist frá ráðuneytinu. Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is í júlí kvaðst ráðherra loks hafa frestað kynningu aðgerðaáætlunarinnar fram á haust.
Ásmundur Einar hefur einnig haldið því fram að hann muni leggja fram skýrslu á haustþingi um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum árin 2017 til 2021, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins í ágúst.
Rúm tvö ár eru liðin frá því hann lofaði að skila skýrslunni fyrir árslok 2022. Lögum samkvæmt hefði ráðherra átt að leggja skýrsluna fram í byrjun þess sama árs.
Umboðsmaður barna hefur sagt það ótækt að ráðherra standi ekki skil á lögbundnum skyldum sínum með þessum hætti. Svör ráðherrans, sem bárust í ágúst á síðasta degi fjögurra vikna svarfrests, slógu ekki á áhyggjur umboðsmanns.